„Öllum sama hvort þú lifir eða deyrð“

Ali sá ekkert annað í stöðunni en að flýja heimalandið …
Ali sá ekkert annað í stöðunni en að flýja heimalandið og til Evrópu. Þangað komst hann aldrei. Ljósmynd/UNICEF

„Við flýjum vegna fátæktar,“ segir Ali. „Við flýjum vegna þess að hér bíður okkar ekkert.“ Ali segir þetta ástæðuna fyrir því að hann ákvað að leggja í hættuför frá heimalandinu Síerra Leóne til Líbíu og þaðan til Evrópu. Flóttaleiðin er kölluð „Temple Run“ meðal innfæddra. 

Framtíð Alis var ekki björt í heimalandinu. Faðir hans er látinn og hann þurfti að stóla á sjálfan sig í flestu. Hann taldi að Evrópa væri besti möguleikinn í stöðunni. Hann lagði af stað með þann litla sparnað sem hann átti. Hann tók rútur og vona að gæfan myndi fylgja sér og koma sér á áfangastað: Til Ítalíu. 

„Að komast yfir eyðimörkina var erfitt en það var ekkert miðað við það sem mætti mér í Líbíu,“ segir Ali. „Ég var svikinn og framseldur í hendur mannræningja. Ég endaði á stað sem var verri en helvíti.“

Ali er meðal viðmælenda í nýrri skýrslu UNICEF um börn á flótta í Vest­ur- og Mið-Afr­íku. Um 12 millj­ón­ir manna á þessu svæði eru á ver­gangi, þ.e. hafa yf­ir­gefið heim­ili sín og ekki fundið sér ann­an samstað. 

Lausnargjalds krafist

Svo langt var Ali á veg kominn að hann hafði stigið um borð í bát sem átti að flytja hann til Ítalíu. En þá var vonin úti. Vopnaðir menn ruddust um borð og handtóku fólkið. Það var flutt í fangaklefa. Um 30-40 manns höfðust við í örsmáum klefanum. Þarna voru mannræningjar á ferð. Þeir drógu fólkið daglega út í garð og hringdu í ættingja þeirra til að krefjast lausnargjalds. 

Rútustöð á Temple Run-flóttaleiðinni. Smyglarar og mannræningjar sitja um fólkið.
Rútustöð á Temple Run-flóttaleiðinni. Smyglarar og mannræningjar sitja um fólkið. Ljósmynd/UNICEF

Ekkert klósett var í boði og engin læknishjálp fyrir þá sem veiktust eða slösuðust. Ali segir að aðbúnaðurinn hafi verið heilsuspillandi og ómannúðlegur. „Ég sá mörg hundruð börn í þessum aðstæðum í Líbíu. Þau voru hrædd en við vorum öll hrædd. Þú ert laminn ef þú sýnir öðrum manngæsku svo allir halda sig útaf fyrir sig.“

Missti meðvitund á flóttanum

Eftir að hafa verið í haldi mánuðum saman ákvað Ali að reyna að flýja. Þegar verðirnir litu undan hljóp hann út í garðinn og stökk yfir vegginn. En ekki tók betra við. Handan veggjarins hafnaði hann skammt frá tveimur vörðum. Án þess að hika slógu þeir hann í höfuðið með sverðum. Honum blæddi svo mikið að hann missti að lokum meðvitund. Hann rankaði við sér þremur dögum síðar og tókst að leita aðstoðar hjá alþjóðlegri stofnun sem aðstoðar flóttamenn. Með hjálp hennar komst hann aftur heim til Síerra Leóne. 

Ali er ekki af baki dottinn þrátt fyrir raunir sínar. Hann hefur opnað lítið fyrirtæki og segist líta björtum augum til framtíðar sinnar og lands síns. „Það sem ég sá var verra en þrælahald,“ segir hann. „Þarna er öllum sama hvort að þú lifir eða deyrð.“

Grimmdarverk mannræningja látin óátalin

Ekki eru allir smyglarar, sem hafa atvinnu af því að koma fólki yfir Miðjarðarhafið, hrottar og glæpamenn. En ferðin sem í hönd fer er þó mjög áhættusöm fyrir alla. Sumir flóttamenn lýstu því í viðtölum við UNICEF að smyglararnir hafi gefið þeim góð ráð og aðstoðað þá við ýmislegt. 

Smygl á fólki er arðvænleg fyrir þá sem taka þá áhættu að stunda það. Smyglararnir eru líka í góðri aðstöðu til að mismuna fólki og misnota það. Fólk treystir þeim beinlínis fyrir lífi sínu og barna sinna. Í einhverjum tilvikum, líkt og hjá Ali, selja smyglararnir fólk í viðkvæmri stöðu til mannræningja. Mannræningjarnir ráðast þá um borð í bátana áður en þeir leggja út á Miðjarðarhafið og krefja ættingja þeirra um lausnargjald. Eins og Ali lýsir er meðferðin hrikaleg. 

Smyglararnir sitja víða um fyrir fólki á flótta. Þeir vakta flóttaleiðirnar og bjóða gull og græna skóga. Mannræningjarnir eru á sömu slóðum. Þeir ræna börnum jafnt sem fullorðnum. Þeir halda svo fólkinu í gíslingu þar til lausnargjald fæst. Fyrr er þeim ekki sleppt. Margir deyja í þessari vítisvist. 

Þar sem mannræningjum er sjaldan refsað fyrir þennan verknað er ómögulegt að segja til um hversu útbreitt vandamálið er og hversu margir hafa týnt lífi í haldi þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert