Rússar hafna þvingunum gegn N-Kóreu

Frá fundi ráðsins í kvöld.
Frá fundi ráðsins í kvöld. AFP

Fulltrúi Rússlands í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna segir ríki sitt mótmæla nýjum efnahagsþvingunum gegn Norður-Kóreu. Þá sé ótækt að grípa til hernaðar gegn stjórnvöldum landsins.

„Allir verða að viðurkenna að þvinganir munu ekki leysa málið,“ sagði aðstoðarsendiherrann Vladimir Safronkov á neyðarfundi ráðsins í kvöld. „Við æðum þá beinlínis inn í pattstöðu.“

„Skot Norður-Kóreu á langdrægri kjarnaflaug er skýr og klár hernaðarleg stigmögnun,“ sagði Nikki Haley, sendifulltrúi Bandaríkjanna.

„Á komandi dögum munum við færa fram fyrir Öryggisráðið tillögu sem miðar að því að auka alþjóðlegt viðbragð í samræmi við gjörðir Norður-Kóreu,“ sagði hún og bætti við að hún hefði rætt við Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrr í dag um mögulegar efnahagsþvinganir gegn ríkjum sem stundi viðskipti við Norður-Kóreu.

„Einn af þeim möguleikum sem okkur standa til boða felst í talsverðum hernaðarmætti. Við munum nota herlið okkar ef við þurfum þess. En við viljum frekar ekki þurfa að taka þá stefnu,“ sagði Haley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert