Fullnaðarsigri brátt lýst yfir í Mosúl

Liðsmenn írösku öryggissveitanna fagna í Mosúl í dag.
Liðsmenn írösku öryggissveitanna fagna í Mosúl í dag. AFP

Stjórnvöld í Írak munu brátt lýsa yfir fullnaðarsigri í baráttunni um að endurheimta borgina Mosúl úr greipum Ríkis íslams. Þetta segir Robert Sofge, hershöfðingi Bandaríkjastjórnar.

„Ég vil ekki vera með getgátur um hvort tilkynningin er í dag eða á morgun, en ég held að hennar sé að vænta mjög bráðlega,“ segir Sofge í samtali við fréttastofu AFP.

Íslamistarnir sem eftir eru í borginni berjast nú til dauða síns á litlu svæði við ána Tígris, segir hann og bætir við að þeir séu örvæntingarfullir.

Mikil tímamót fyrir öryggissveitirnar

Einhverjir hafa reynt að laumast úr borginni og slegist í för með almennum borgurum á flótta. Hafa þeir þá skorið skegg sín og skipt um föt. Enn aðrir hafa þóst vera látnir á jörðinni en virkja svo sprengjuvesti þegar öryggissveitir ríkisstjórnarinnar nálgast.

„Þeir eru að reyna að valda eins miklum skaða og þeir geta á þessum síðustu stundum orrustunnar,“ segir Sofge.

Baráttan um að endurheimta Mosúl hófst 16. október síðastliðinn og hefur farið sífellt harðnandi eftir því sem herlið ríkisstjórnarinnar hefur nálgast miðju borgarinnar.

Fullnaðarsigur í Mosúl myndi marka mikil tímamót fyrir öryggissveitir Íraka, sem molnuðu niður frammi fyrir skyndilegu áhlaupi hryðjuverkasamtakanna árið 2014.

Borgin er illa leikin eftir átök síðustu ára.
Borgin er illa leikin eftir átök síðustu ára. AFP
Liðsmaður öryggissveitanna í átökum við Ríki íslams.
Liðsmaður öryggissveitanna í átökum við Ríki íslams. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert