Valdaránstilraunin sem breytti landinu

Tyrkneskir hermenn sem sakaðir eru um að hafa átt þátt …
Tyrkneskir hermenn sem sakaðir eru um að hafa átt þátt í valdaránstilrauninni færðir í fangelsi í Ankara. AFP

Þann 15. júlí verður liðið eitt ár frá valdaránstilrauninni misheppnuðu í Tyrklandi. Reynt var að steypa forseta landsins, Recep Tayyip Erdogan, af stóli en þrátt fyrir að hafa mislukkast hefur tilraunin haft víðtæk áhrif á samfélag og stjórnmál landsins.

Herferð gegn andstæðingum Erdogan

Í Tyrklandi stendur yfir hreinsun á meintum stuðningsmönnum valdaránsins og á sama tíma herðir Erdogan greipar á völdum í landinu. Stjórnvöld standa fyrir yfirgripsmikilli herferð og hreinsunum þar sem yfir 50.000 hafa verið handteknir og aðrir 100.000 reknir úr störfum sínum. Um helmingur tyrkneskra hershöfðingja hefur verið handtekinn eða sagt upp störfum.

Herferð stjórnvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar hefur veikt stöðu Tyrklands í alþjóðasamfélaginu, þá sérstaklega gagnvart Evrópuríkjum og Bandaríkjunum. En Tyrkir hafa einangrast að vissu leyti þegar kemur að diplómatískum samskiptum.

Breyttu nafni Bosporus-brúar

Mikið stendur til í Tyrklandi vegna árs afmælisins en 15. júlí er nú opinber frídagur í landinu og nefnist Dagur lýðræðis og þjóðarsameiningar. Erdogan heldur ræðu á brúnni sem liggur yfir Bosporus-sund og hefur fengið heitið Brú 15. júlí píslarvottana. Áður nefndist brúin einfaldlega Bosporus-brú.

Séð yfir Bosporus-sund í Tyrklandi.
Séð yfir Bosporus-sund í Tyrklandi. AFP

Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að nota neyðarástandið sem lýst var yfir 20. júlí 2016, og er enn í gildi, til þess að losa sig við andstæðinga Erdogan. Þar á meðal blaðamenn, aðgerðarsinna og stjórnmálamenn. En í skjóli neyðarástands geta stjórnvöld farið fram hjá ákvörðunum þingsins.

Erdogan fagnaði sigri 16. apríl þar sem 18 tillögur til breytinga á stjórnarskrá voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Breytingarnar taka gildi 2019 og veita forseta landsins aukin völd.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert