Duterte heitir sjálfstæðisfrumvarpi flýtimeðferð

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja (annar frá hægri), og Al-Hajj Murad, …
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja (annar frá hægri), og Al-Hajj Murad, leiðtogi MILF-uppreisnarsamtakanna (annar frá vinstri), með Bangsamoro Basic Law (BBL) frumvarpið. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hét því á mánudag að flýta fyrir meðferð þingfrumvarps sem veitir hluta eyjanna sjálfsstjórn. Vonast Duterte með þessu til að binda endi á áratuga langar uppreisnar- og ofbeldisaðgerðir uppreisnarmanna úr röðum íslamista.

Frumvarpið, sem hefur fengið nafnið Bangsamoro Basic Law (BBL), var samið í sameiningu af stjórnarliðum Dutertes og liðsmönnum MILF, sem eru stærstu uppreisnarsamtök eyjanna.  Er frumvarpinu ætlað að gera hluta eyjunnar Mindanao, sem að stærstum hluta er byggð múslimum, að sjálfsstjórnarríki með eigið framkvæmda-, löggjafar- og fjármálavald.

„Ég segi ykkur, bræður mínir [...] að ég mun styðja og flýta fyrir samþykkt þessa frumvarps,“ sagði Duterte er hann tók við skjalinu og uppskar mikil fagnaðarlæti fyrir.

Nái frumvarpið í gegnum þingið þá yrði það mikið afrek fyrir Duterte, sem var borgarstjóri Mindanao í 22 ár, en hann hefur gert friðarsamninga við aðskilnaðarhópa og uppreisnarmenn marxista að forgangsmálum stjórnar sinnar.

Frumvarpið þykir koma á heppilegum tíma, en áhyggjur hafa verið yfir að uppreisnarmenn með tengsl við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams séu að nýta sér svartsýni annarra uppreisnarhópa á að samningar náist. Þannig hafa uppreisnarmenn, sem tekið hafa sér Ríki íslams til fyrirmyndar, hertekið fjármálahverfi Marawi-borgar á Mindanao og í kjölfarið hafa rúmlega 500 manns farist í loftárásum og 260.000 manns hrakist frá heimilum sínum undanfarnar sjö vikur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert