Íhuga að veita þúsundum áritanir

Fjöldi flóttamanna leggur leið sína til Ítalíu til að komast …
Fjöldi flóttamanna leggur leið sína til Ítalíu til að komast áfram til annarra Evrópuríkja. AFP

Stjórnvöld á Ítalíu íhuga að veita tugþúsundum flóttamanna tímabundnar vegabréfsáritanir þannig að þeim verði frjálst að ferðast til annarra Evrópusambandslanda. 

Fréttavefur The Guardian greinir frá því að líkurnar á því að stjórnvöldum á Ítalíu verði heimilt að veita vegabréfsáritanir af þessum toga séu litlar. Þetta gæti hins vegar sett þrýsting á Frakkland og Þýskaland að létta Ítalíu byrðina og taka við fleiri flóttamönnum.

Í stríðinu á Balkanskaga á tíunda áratugnum var ráðist í sams konar aðgerðir en þá voru vegabréfsáritanir veittar af mannúðarástæðum. 

Staðgengill utanríkisráðherra, Mario Giro, segir að stjórnvöld séu að leita allra leiða, þar á meðal veitingar vegabréfsáritana, en þau eru undir miklum þrýstingi vegna vandans. Áætlað er að 93.357 manns, aðallega frá Afríku og Bangladesh, hafi komið sjóleiðis til Ítalíu það sem af er ári, sem er 17% aukning frá sama tímabili á síðasta ári. 

Nú þegar hafa stjórnvöld stefnt að því að setja strangari reglur um það hvernig björgunarskip frá mannúðarsamtökum beri sig að úti á hafi. Fari þau ekki eftir reglum verði þeim neitað um að landa í höfn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert