Jasídakonur hefna kynlífsþrælkunar

Liðsmenn YPJ í austurhluta Raqa. Þar hafa jasídakonur tekið þátt …
Liðsmenn YPJ í austurhluta Raqa. Þar hafa jasídakonur tekið þátt í áhlaupinu á borgina. AFP

Vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams notuðu Hezu sem kynlífsþræl. Heza var seld vígamönnum samtakanna í Raqa í Sýrlandi, en náði að flýja þaðan. Hún er nú komin aftur til borgarinnar sem liðsmaður uppreisnarsamtaka jasídakvenna og ætlar að hefna hryllingsins sem hún og þúsundir annarra kvenna urðu að líða.

„Þegar ég tók fyrst þátt í bardögunum dró aðeins úr vanlíðan minni,“ segir Heza í viðtali við AFP-fréttastofuna. Hún er nú stödd í Al-Meshleb-hverfinu í austurhluta Raqa ásamt hópi annarra jasídakvenna sem taka þátt í bardögunum. „Hjarta mitt verður þó fullt hefndarþorsta þar til allar konurnar hafa verið látnar lausar.“

Heza og tvær systur hennar voru meðal þúsunda jasídakvenna og -stúlkna sem vígamenn Ríkis íslams tóku í gíslingu á ferð sinni um Sinjar-héraðið í Írak í ágúst 2014.

Konurnar gengu kaupum og sölum meðal vígamanna í „kalífadæmum“ þeirra í Sýrlandi og Írak. Talið er að um 3.000 konur séu enn á þeirra valdi og þar á meðal er önnur systir Hezu.

„Þegar þjóðarmorðið á jasídum átti sér stað tók Ríki íslams konurnar og stúlkurnar og ég var ein þeirra,“ rifjar Heza upp.

Heza ferðaðist 400 km leið yfir stríðshrjáð héruð Sýrlands til …
Heza ferðaðist 400 km leið yfir stríðshrjáð héruð Sýrlands til að ganga til liðs við YPS og hefna kynsystra sinna. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa úrskurðað dráp Ríkis íslams á minnihlutahópi jasída þjóðarmorð.

„Eltu okkur og niðurlægðu“

„Þeir fóru með okkur eins og kindur. Þeir eltu okkur og niðurlægðu á þessum götum,“ segir Heza og bendir á húsarústir í Al-Meshleb, sem var fyrsta hverfi Raqa sem bandamenn náðu af samtökunum í borginni.

Heza dvaldi í Raqa í 10 mánuði og var á þeim tíma seld fimm vígamönnum Ríkis íslams. Hún vill ekki tjá sig um misnotkunina sem hún sætti en segist nokkrum sinnum hafa reynt að fremja sjálfsvíg, allt þar til hún náði að flýja í maí 2015.

Hún ferðaðist síðan 400 km leið yfir stríðshrjáð héruð Norðaustur-Sýrlands til að ganga til liðs við Shengal, uppreisnarsamtök kvenna (YPS), þar sem hún var þjálfuð í notkun vopna.

Liðsmenn YPJ í austurhluta Raqa setjast að snæðingi.
Liðsmenn YPJ í austurhluta Raqa setjast að snæðingi. AFP

„Þegar áhlaupið á Raqa hófst vildi ég taka þátt í því fyrir allar jasídastúlkurnar sem voru seldar úti á götum þar,“ sagði hún. „Markmið mitt er að frelsa þær og hefna þeirra.“

Hún segir það hafa verið ólýsalega tilfinningu þegar hersveitir komust svo loks inn í borgina í júní á þessu ári.

Markmiðið að frelsa konur úr klóm Ríkis íslams

Jasídastúlkan Merkan tekur einnig þátt í átökunum. Hún kom ásamt eldri systur sinni frá Þýskalandi, þar sem þær ólust upp, til að hefna meðferðar Ríkis íslams á jasídakonum.

„Ég hafði aðeins eitt markmið: Að frelsa jasídakonur og aðrar konur sem eru enn í klóm Ríkis íslams,“ segir hún.

„Í gær var það Al-Quaeda og í dag er það Ríki íslams. Við vitum ekki hvað gerist næst en ég vil fara á hvern þann stað þar sem óréttlæti ríkir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert