Kemur Kelly reglu á starfsmannamál Hvíta hússins?

John Kelly, nýr starfmannastjóri Hvíta hússins, er sagður vera lítið …
John Kelly, nýr starfmannastjóri Hvíta hússins, er sagður vera lítið fyrir málalengingar. AFP

John Kelly, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti, tilkynnti nú fyrr í kvöld að hefði tekið við sem starfsmannastjóri Hvíta hússins, er fyrrverandi sjóliðsforingi. Frá því að Trump tók við embætti hefur Kelly gegnt embætti heimavarnarráðherra eftir 45 ára veru í hernum.

Kelly, sem er 67 ára, hefur orð á sér fyrir að vera lítið fyrir málalengingar og víst þykir að hann þurfi á seiglunni að halda í nýja starfinu þar sem hann á að koma reglu á þá óreiðu sem virðist vera á starfsmannamálum Hvíta hússins.

Trump tilkynnti á samskiptamiðlinum Twitter í kvöld að Kelly tæki við að Reince Priebus sem starfsmannastjóri Hvíta hússins og sagði hann vera „frábæran Bandaríkjamann“ og „frábæran leiðtoga“.

Úr íslömskum öfgamönnum í pólitískt baktjaldamakk

Kelly mun þar með fara frá því að leiða baráttuna gegn íslömskum öfgamönnum og ólöglegum innflytjendum yfir í að reka Hvíta húsið, sem undanfarið hefur verið í skugga upplýsingaleka og pólitísks baktjaldamakks vegna ásakana um tengsl framboðs forsetans við ráðamenn í Rússlandi.

AFP segir Kelly vera einn af nokkrum háttsettum liðsmönnum Trump-stjórnarinnar sem eigi að baki feril í hernum. Hann kom m.a. að landamæramálum, straumi hælisleitenda og aðgerðum gegn fíkniefnasmygli á Kyrrahafi og í Rómönsku-Ameríku í starfi sínu í hernum. Sú reynsla kom honum vel sem heimavarnaráðherra, þar sem landamæraeftirlit og innanlandsöryggi voru meðal helstu verkefna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og John Kelly leggja hér blóm á …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og John Kelly leggja hér blóm á gröf sonar Kellys, Robert Kelly, í herkirkjugarðinum í Arlington. AFP

Fyrir vikið var Kelly líka mikilvægur liður í þeim kosningaloforðum Trumps að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, að senda óskráða innflytjendur úr landi og herða vegabréfaeftirlit í leit að íslömskum öfgasinnum.

Missti son sinn í bardaga

AFP segir Kelly líka vera náinn Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Var hann raunar nánasti aðstoðarmaður Mattis í Írakstríðinu, í árásinni á Bagdad árið 2003.

Sú reynsla að hafa misst son sinn í bardaga er líka sögð hafa mótað hann, en Robert Michael Kelly sem einnig var í sjóhernum lést í bardaga í Afganistan 2010.

Kelly er borinn og barnfæddur Bostonbúi og skráði sig í herinn þegar hann var tvítugur. Hann var tvö ár fótgönguliði, en yfirgaf þá herinn og fór í háskóla.

Reis hratt upp metorðastigann

Eftir að hann útskrifaðist skráði hann sig í herinn á ný og reis nú hratt upp metorðastigann. Hann var m.a. sérstakur tengiliður sjóhersins við Bandaríkjaþing á tíundaáratug síðustu aldar og var um tíma sérstakur aðstoðarmaður yfirmanns Bandaríkjahers í Evrópu.

Kelly tók þátt í Íraksstríðinu líkt og áður sagði, þar sem hann þjónaði undir Mattis og áður en hann fór á eftirlaun í janúar í fyrra hafði hann hlotið fjórar stjörnur.

Joe Manchin, öldungadeildaþingmaður demókrata, sagði í viðtali á CNN í kvöld að Kelly væri vel liðinn af báðum flokkum. Spurður hvort hann væri rétti maðurinn til að koma reglu á starfsmannamál Hvíta hússins svaraði hann: „Ef hershöfðingi getur það ekki, þá veit ég ekki hver getur það. Hann mun ekki sætta sig við neina vitleysu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert