Hvetja Kelly til að koma reglu á Hvíta húsið

John Kellys, fyrrverandi heimavarnarráðherra og núverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins bíður …
John Kellys, fyrrverandi heimavarnarráðherra og núverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins bíður vandasamt verk, við að draga úr deilum meðal starfsmanna. AFP

Repúblikanar hvöttu í dag John Kelly, sem tekur á morgun við embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins, til að taka óreiðuna þar föstum tökum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gegnum samskiptamiðilinn Twitter fyrir helgi að hann hefði skipað Kelly, sem þá var heimavarnarráðherra, að taka við starfsmannastjóra embættinu  af Reince Preibus.

Reters fréttastofan segir Trump hafa á fyrstu sex mánuðum sínum í embætti gengið gegn öllum hefðum í stjórnarrekstri með óljósum ákvarðanastíl og með því að hafa dyr forsetaskrifstofunnar ávalt opnar fyrir ráðgjafa, bæði  þá sem starfa fyrir stjórnina og svo aðra. Fyrir vikið séu samskipti hátt settra starfsmanna Hvíta hússins nú stirð og bitrar deilur þeirra á milli áberandi.

„Hann þarf að draga úr dramanu, draga úr illmælgi innanhúss, koma í veg fyrir upplýsingalekana og koma einhverri reglu á samskiptin,“ sagði Karl Rove, sem var ráðgjafi í Hvíta húsinu í forsetatíð George W. Bush, í viðtali á Fox sjónvarpsstöðinni.

„Trump er í miklum vanda. Þetta var óreiðukenndasta vika sem við höfum upplifað í óreiðukenndri forsetatíð,“ sagði Rove. Heilbrigðisfrumvarpið sem forsetinn vill að taki við af Obamacare komst ekki til þinglegrar meðferðar, auk þess sem þingið samþykkti refsiaðgerðir gegn Rússum í óþökk hans. Þá má geta gagnrýninnar sem Trump hlaut fyrir að banna transfólk í hernum og fyrir að halda pólitíska ræðu á landsfundi skáta.

Í ofanálag olli hörð gagnrýni Anthony Scaramucci, nýs samskiptastjóra Hvíta hússins, í garð þeirra Priebus og Steve Bannon, eins helsta ráðgjafa forsetans, verulegu fjaðrafoki.

Reuters fréttastofan segir repúblikana hins vegar hafa fagnað þeirri ákvörðun Trump að fá Kelly inn í Hvíta húsið.

„Ég tel að hann muni koma með aga og reglur inn í Hvíta húsið,“ sagði Susan Collins, öldungadeildaþingmaður Repúblikanaflokksins í samtali við NBC sjónvarpsstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert