Brúður vígamanns rifjar upp hryllinginn í Raqa

Islam Mitat var tískubloggari og eðlisfræðistúdent þegar hún var blekkt …
Islam Mitat var tískubloggari og eðlisfræðistúdent þegar hún var blekkt til Tyrklands og neydd til að fara til Sýrlands. Skjáskot/CNN

Islam Mitat er 23 ára tveggja barna móðir. Lífi hennar var snúið á hvolf þegar Ahmed, eiginmaður hennar til þriggja ára, neyddi hana til að flytja með sér til Sýrlands þar sem hann gerðist vígamaður hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Mitat fæddist í Marokkó og var eðlisfræðistúdent og fyrrverandi tískubloggari þegar hún flutti með Ahmed til Sýrlands. Þar bjuggu þau í borginni Raqa, sem þar til nýlega var eitt af höfuðvígjum samtakanna í landinu. Mitat segist hafa fundið eins konar breska nýlendu í borginni þar sem fjöldi ungra Breta barðist fyrir samtökin. 

Í viðtali við breska blaðið Sunday Times frá leynilegum stað í norðurhluta Syrlands rifjar Mitat upp er hún bjó í húsi í Raqa með breskum tvíburasystrum, Zöhru og Sölmu Halane, sem flúðu að heiman frá Manchester árið 2014.

Glöddust við að lesa um sjálfar sig

Þrjár breskar skólastúlkur frá Bethnal Green í austurhluta London bjuggu einnig í húsinu. Þær Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum, sem og brúðir vígamanna frá Bristol og Glasgow.

Mitat kynntist einnig Sally Jones, sem kölluð hefur verið Hvíta ekkjan og er væntanlega einn eftirlýstasti kvenkyns hryðjuverkamaðurinn. Hún segir bresku vígamennina hafa glaðst við að lesa um sjálfa sig í breskum fjölmiðlum og þeir hafi fagnað fréttum af hryðjuverkaárásum í Evrópu.

Skömmu eftir að Mitat kom til Sýrlands var maður hennar drepinn í átökum við Kobande. Nokkrum mánuðum síðan fæddist Abdullah, sonur þeirra, sem nú er tveggja ára. Ahmed hafði hún kynnst á stefnumótavef fyrir múslima og hann sagt henni að þau þyrftu að fara til Tyrklands vegna vinnu sinnar. Þegar þangað var komið neyddi hann hana til að laumast ólöglega yfir landamærin til Sýrlands.

Bannað að yfirgefa húsið og umgangast vini sína

Eftir dauða hans var hún látin giftast afgönskum vígamanni sem hafði búið í Þýskalandi. Hann bannaði henni að yfirgefa húsið, hitta vini sína og slökkti alla von hennar um að geta flúið.

Mitat tókst þó að skilja við hann, en var þá látin giftast áströlskum vígamanni, Abu Abdallah al-Afghani. 

Hún segist engu að síður hafa áttað sig á að staða hennar var betri en þeirra kvenna af þjóðarbroti Jasída sem vígamennirnir tóku sér sem kynlífsþræla. Matid sá þær reglulega vera barðar og segir vígamennina hafa litið á þær sem „stundargaman“.

Independent segir Matit hafa reynt að kaupa einni þeirra frelsi, en hafi skort fé til að ganga frá viðskiptunum.

Óhugnaður stríðsins fór heldur ekki framhjá henni þegar átökin hörðnuðu og sá Matit m.a. limlest lík svonefndra svikara hengd upp öðrum til varnaðar og þá voru götur Raqa blóði drifnar eftir loftárásir.

„Það var erfitt að horfa upp á einhvern drepinn við hlið manns,“ segir hún. „Blóðbaðið og allt það. Þetta var hræðilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert