Henti pönduhúnum til og frá

Starfsmenn ræktunarstöðvarinnar tóku húnana og hentu þeim til og frá.
Starfsmenn ræktunarstöðvarinnar tóku húnana og hentu þeim til og frá.

Dýrahirðir í ræktunarstöð fyrir pandabirni í Kína togaði í, ýtti við, hrinti og fleygði til tveimur húnum sem reyndu að sleppa út úr búri sínu í stöðinni. Um er að ræða eina stærstu ræktunarstöð fyrir pöndur á heimsvísu og vinsælan áfangastað ferðamanna. Myndbandsupptöku af þessari illu meðferð dýrahirðisins hefur verið dreift um netið.

Myndbandið var tekið upp 12. júlí og í síðustu viku var það birt á netinu. Það hefur vakið mjög hörð viðbrögð þeirra sem á hafa horft.

Dýrahirðirinn segir í samtali við kínversku fréttastofuna Xinhua að hann hafi verið að gefa húnunum tveimur, þeim Rourou og Manman, að drekka mjólk er þeir fóru að leika sér. „Annar þeirra beit mig fast og tennurnar stungust inn í holdið og það byrjaði að blæða,“ útskýrir maðurinn. „Þegar hann reyndi að bíta mig aftur þá ýtti ég honum ósjálfrátt frá mér.“ Starfsmaðurinn heldur því fram að myndbandið sem var birt á netinu, sem er 12 mínútur að lengd, hafi verið klippt sérstaklega til svo að viðbrögð hans við biti húnsins virtust verri en þau voru. Aðrir dýrahirðar hafa staðfest við fréttastofuna að húnarnir eigi það til að bíta.

Wo Kongju, sem er yfirmaður í ræktunarstöðinni, telur að dýrahirðirinn hafi gengið of langt. Hann hafi þó ekki ætlað að meiða pönduhúnana. „Við vonum að fólk sýni dýrahirðunum meiri skilning því að þó að pönduhúnar séu sætir þá eru þeir sterkir og geta verið árásargjarnir.“

Bent hefur verið á að skýringar ræktunarstöðvarinnar haldi vart vatni, m.a. í frétt BBC. Ljóst sé að dýrahirðirinn hafi ekki verið með neinn hlífðarbúnað, svo sem hanska, er hann var að vinna með húnunum. Í kjölfar birtingar myndskeiðsins hafa stjórnendur Chendu-ræktunarstöðvarinnar farið fram á það við starfsfólk sitt að það taki „blíðlegar“ á dýrunum ef þau klóra eða bíta.

Pöndum er hægt og bítandi að fjölga í heiminum en tegundin er þó enn í útrýmingarhættu. Árið 2014 voru villtar pöndur 1.864 og 2.060 lifandi dýr í heildina í heiminum.

Ítarleg frétt The Dodo um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert