„Við erum ekki óvinir ykkar“

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkjastjórn leitast ekki eftir því að ný stjórn taki við völdum í Norður-Kóreu. Þetta segir Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í kjölfar aukinnar spennu vegna kjarnorkutilrauna Norður-Kóreumanna að undanförnu.

„Við erum ekki óvinur ykkar,“ segir Tillerson, en hann segir Bandaríkin vilja á einhverjum tímapunkti eiga samtal við yfirvöld í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.

 „Við leitumst ekki eftir stjórnarbreytingum, vil leitumst ekki eftir því að stjórnin falli, við ætlum ekki að flýta fyrir því að sameina svæðið á nýjan leik, við leitum ekki að afsökun til að senda herinn okkar norður fyrir 38. breiddargráðu,“ sagði Tillerson. „Við erum ekki óvinur ykkar, við erum ekki ógn við ykkur en þið hafið sýnt óásættanlega ógn í okkar garð og við verðum að bregðast við.“

Segir Trump nefna stríð sem möguleika

Um svipað leyti og Tillersson lét ummælin falla sagði hátt settur repúblikani að Donald Trump Bandaríkjaforseti skoðaði þann möguleika að hefja stríð gegn Norður-Kóreu ef þeir hættu ekki uppteknum hætti.

Í framhaldi af síðasta tilraunaskoti Norður-Kóreumanna á föstudag sagði Lindsay Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, að Donald Trump hafi sagt það koma til greina að hefja stríð við Norður-Kóreu ef yfirvöld í Pyongyang létu ekki af áformum sínum um þróun kjarnorkuvopna.

„Hann hefur sagt mér það. Ég trúi honum,“ sagði Graham í samtali við fréttaþátt á NBC í dag. „Ef það verður stríð til að stoppa [Norður-Kóreu] þá mun það vera þar. Ef þúsundir láta lífið, þá verður það þar. Þeir munu ekki deyja hér. Og hann [Trump] hefur sagt mér það persónulega,“ sagði Graham.

Frétt BBC

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins.
Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert