Himnasending fjölmiðlanna

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óspart gagnrýnt fjölmiðla vestanhafs og umfjöllun …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óspart gagnrýnt fjölmiðla vestanhafs og umfjöllun þeirra. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sumpart reynst himnasending fyrir fjölmiðla; sjónvarps- og útvarpsstöðvar, tímarit og dagblöð. Bandaríska kapalstöðin CNN hefur byggt tilveru sína á því að vera fyrst með fréttir af stórviðburðum heima fyrir og erlendis. Vinsældir hennar höfðu skroppið saman og áhorf dalað verulega. Frá því Trump var útnefndur forsetaefni Repúblikanaflokksins í fyrra er öldin önnur. Hann hefur hvað eftir annað lagt stöðinni nýja „fyrstu frétt“. Stórblaðið The New York Times (NYT) gengur það langt að segja Trump eigi sinn þátt í að bjarga CNN.

Óhætt er að segja, að stjórn Trump hafi lýst stríði á hendur fjölmiðlum við valdatöku hans í janúar sl. Hún á einnig í stríði við dómskerfið, rekur hernað á hendur á leiðtogum Demókrataflokksins í fulltrúadeild þingsins og hamast á stundum líka á forystu Repúblikanaflokksins í deildinni. Harðast skeytir forsetinn þó skapi sínu á fjölmiðlunum.

Upp til hópa segir hann fjölmiðlana vera „smán, ósanna, hræðilega, falsa fréttir og stjórnlausa.“ Blaðamenn séu „mjög óheiðarlegt fólk“, og skrif þeirra og umfjallanir „svívirðulegar“. New York Times sé „á fallanda fæti“, CNN „skelfileg“ og netmiðillinn Buzzfeed „sorp“. Smiðshögg sleggjudóma sinna rak svo Trump er hann tísti við tækifæri í febrúar sl., að „falsfréttamiðlarnir“ (NYT, NBC News, ABC, CBS og CNN), væru ekki óvinir hans, heldur væru þeir „óvinir bandarísks almennings“. Trump er á því að landsmenn geti ekki treyst þessum fjölmiðlum.

Óhætt er að segja, að stjórn Trump hafi lýst stríði …
Óhætt er að segja, að stjórn Trump hafi lýst stríði á hendur fjölmiðlum við valdatöku hans í janúar. AFP

Fyrir lá að Trump væri ágætissjónvarpsefni því hann stýrði raunveruleikaþættinum „The Apprentice“, eða Viðvaningurinn, á NBC-stöðinni um 14 ára skeið. Framkvæmdastjóri afþreyingarefnis hjá NBC þá var Jeff Zucker, núverandi forstjóri CNN. Honum var ljóst fyrir og eftir forsetakosningarnar að máttur Trumps í sjónvarpi gæti verið mikill. Breytti þar engu þótt forsetinn hefði opinberlega lýst stöðinni sem boðbera „falsfrétta“. Segir NYT CNN hafi notið í ríku mæli tilkomu pólitíska fyrirbærisins Donalds Trump. Þykir kaldhæðnislegt að Trump og Zucker skuli eiga í stríði því þeir eiga hvor sinn þátt í að skapa hinn sem sjónvarpsstjörnu.

Sambúð þeirra var báðum til hagsbóta

CNN stöðin hóf göngu sína 1. júní 1980 og hefur sent út fréttir nánast hverja einustu mínútu síðan. Útsendingar hennar ofan af þaki Al-Rasheed hótelsins í Bagdad er fyrstu snjallsprengjur bandaríska hersins lentu á borginni í Persaflóastríðinu 1991 urðu til að styrkja stöðu stöðvarinnar og mátt viðstöðulauss beins fréttasjónvarps. Skóp CNN með þessu sérstakan sess. Undir lok tíunda áratugarins lauk einokun hennar sem kapalfréttastöðvar. Þrátt fyrir það þénaði CNN vel, sótti tekjur aðallega í þóknanir sem kapalsjónvarpsveitur borguðu fyrir að fá að hafa stöðina í tilboðspökkum sínum.

Tilvistarógn beið handan hornsins. Ört vaxandi fjöldi fólks var tekinn að fylgjast með fréttum í snjallsímum og ókeypis myndböndum á netinu. Spurningin var því hversu mikið lengur yrðu menn viljugir til að borga fyrir rándýra kapalstöðvapakka? Alvöru stórfréttir væru af skornum skammti og fólk missti fljótt áhuga á þeim.

Rak þá á fjörur stöðvarinnar – og annarra miðla – forsetaframbjóðandi sem var mannleg nýfrétt. Í hvert sinn sem Trump opnaði munninn bauð hann upp á spennu og átök. Hið sama átti við um aðstoðarmenn hans og staðgengla sem vörðu og réttlættu yfirlýsingar hans. Virtist oft sem Trump hefði í raun byggt kosningabaráttu sína fyrst og síðast á þeim hæfileika sínum að geta sí og æ svalað endalausum þorsta fréttasjónvarps í geðfellt fréttaefni.

Hefði Trump tapað kosningunum þykir líklegast að barátta stöðvarinnar fyrir tilveru sinni hefði hafist á ný. Svo fór ekki og CNN er miðlægari í umræðum fólks og samtölum manna á milli en nokkru sinni frá fyrra Persaflóstríðinu.

Meira fylgst með fjölmiðlum

CNN var alls ekki eini fréttamiðillinn til að metta markaðinn af fréttum og frásögnum af kosningabaráttu Trump. Greiningarfyrirtækið mediaQuant hefur reiknað út að Trump hafi fengið ókeypis umfjöllun að verðmæti 5,8 milljarða dollara ef hún væri umreiknuð í borgaðar auglýsingar. Var það 2,9 milljörðum dollara meira en Hillary Clinton fékk. CNN er heldur ekki eina kapalfréttastöðin sem notið hefur holdgunar Trumps sem stjórnmálamanns. Áhorf á MSNBC og Fox News rauk einnig upp í kosningabaráttunni og hefur ekki sýnt nein merki þess að vera að dala. Fox, uppáhaldsstöð forsetans, naut á fyrsta ársfjórðungi meira áhorfs en nokkru sinni í sögu útsendinga sinna allan sólarhringinn. MSNBC, stöð andspyrnunnar gegn Trump, hefur einnig þrifist vel og margsinnis mælst með meira áhorf á besta útsendingatíma en CNN, sem var fyrsti stóri fjölmiðillinn til að sýna stöðugt og mikið frá baráttu Trumps fyrir útnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins. Var hann að staðaldri gestur í fréttastúdíói stöðvarinnar. Reiknað hefur verið út að CNN hafi nefnt nafn Trumps næstum því átta sinnum oftar í forkosningunum en nafn nánasta keppinautar hans, Ted Cruz.

Eftir að Trump fór í framboð og náði kjöri hefur …
Eftir að Trump fór í framboð og náði kjöri hefur afkoma stóru fjölmiðlanna batnað til muna, m.a. hjá CNN og The New York Times. AFP

Hermt er að Trump sé „stærsta frétt“ sem CNN hefði getað gert sér í hugarlund að fá upp í hendurnar. Í ljós kom að hið eina sem var betra en að hafa hann á skjánum var að liggja undir árásum frá honum. Það er fjarri lagi að þær hafi skaðað CNN, öllu heldur hafa þær reynst hin ágætasta auglýsing. Fréttastjórar og fréttamenn stöðvarinnar hafa verið í stjörnuhlutverki í hinum pólitíska sjónleik; málsvarar tjáningarfrelsis. Fréttir og frásagnir af Trump hafa reynst stöðinni vel. Daglegt meðaláhorf jókst um 50% í fyrra og áhorfendum á helsta áhorfstíma um 70%. Stöðin þénaði í fyrra tæpan milljarði dollara og hefur afkoma hennar aldrei verið betri. Áhorf er aftur á uppleið á þessu ári og útlit fyrir að afkoman verði enn betri í ár en í fyrra.

Staða CNN styrkist

CNN hefur skúbbað mörgum stórfréttum undanfarna mánuði sem orðið hafa til að styrkja mikilvægi stöðvarinnar. Hún var fyrst til að leyniþjónustumenn veittu Trump upplýsingar um staðhæfingar þess efnis að Rússar hefðu upplýsingar í höndunum er gætu valdið honum vandræðum. Einnig flutti CNN fyrst fréttina um að forsetaembættið hefði beðið bandarísku alríkislögregluna, FBI, að neita því opinberlega að fólk náið Trump hafi átt í samskiptum við Rússa meðan á kosningabaráttunni stóð. Fréttir sem þessar auka ekki aðeins á heimsóknir á fréttavef CNN heldur bjóða þær einnig upp á umræður og bollaleggingar um þær í beinni útsendingu. Þótt heimsóknir á vefsíðuna séu aðeins brot miðað við áhorfstölur að sjónvarpsútsendingunum þá er vefsíðan farin að gefa afla stöðinni tekna. Í fyrra gaf hún af sér 300 milljónir dollara.

Eftir að hafa tryggt sér útnefningu sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins ákvað Trump að snúast frekar gegn tilteknum fjölmiðlum en hafa þá með sér, enda fannst honum þeir ósanngjarnir og óvægnir í sinn garð. Meðal þeirra var CNN, en Trump mislíkaði hvernig stöðin rakti upp yfirlýsingar hans, innihaldsleysi þeirra og rangfærslur og birti jafnharðan á textasvæði neðst á sjónvarpsskjánum. Engin fordæmi voru fyrir slíku í sögu stöðvarinnar. Kom það í hlut tengdasonar forsetans, Jared Kushner, að tilkynna fjölmiðlum um ákvörðun hans. Sagði hann að þaðan í frá myndi Trump einungis veita vinsamlegum miðlum viðtöl.

Zucker CNN-stjóri sagði Kushner að þetta væru mistök, rannsóknir sýndu að forsetaefni sem ekki væri handgengið stöðinni gæti ekki unnið kosningarnar. Skömmu seinna boðaði Trump fréttastjóra og fulltrúa sjónvarpsstöðva á sinn fund í Trump-turninum í New York. Látið hafði verið í veðri vaka að þar myndi hann reyna að friðmælast en reyndin varð önnur. Húðskammaði forsetaframbjóðandinn gesti sína og tók CNN sérstaklega út úr og sakaði stöðina um óheiðarlegan fréttaflutning. Stöðin fékk líka sinn skerf á fyrsta blaðamannafundi forsetans eftir að hann tók við völdum í Hvíta húsinu. Vildi hann ekki sjá hana og neitaði Trump að svara spurningum blaðamanns hennar. „Nei, ekki þú. Stofnun þín er skelfileg“.

89% umfjöllunarinnar neikvæð

Trump hefur tíst um að New York Times væri á fallandi fæti jafnvel þótt hlutabréf í fyrirtækinu hefðu hækkað um 30% á innan við 100 dögum eftir að hann var kosinn forseti. Hann hefur hins vegar mætur á íhaldssömum miðlum eins og Breitbart og Fox News og hindrað ýmsa miðla í að sækja daglega fréttamannafundi í Hvíta húsinu. Þá lagði hann til að útvarpsstofnunin bandaríska yrði svipt fjárframlögum. Sýndi hann engin vettlingatök á fyrsta blaðamannafundi sínum í embætti og reifst við fulltrúa nokkurra fjölmiðla. „Almenningur trúir ykkar líkum ekki lengur,“ skellti hann framan í þá.

Donald Trump kyssir dóttur sína, Invönku Trump, á samkomu í …
Donald Trump kyssir dóttur sína, Invönku Trump, á samkomu í Hvíta húsinu í gær. AFP

Athugun rannsóknarsetursins Media Research Center hefur leitt í ljós, að 89% umfjöllunar stóru fjölmiðlanna um Trump sé að upplagi neikvæð. Fyrrverandi kosningastjóri hans, Corey Lewandowski, er á því að meðferðin á forsetanum nú sem í fyrra sé af ásettu ráði gerð. Almenningur hafi risið upp gegn þessu því hann hefði viljað Donald Trump og því kosið hann.

Hann elskar fjölmiðlana

„Hann elskar fjölmiðlana að mörgu leyti jafnmikið og hann hatar þá,“ segir Paul Farhi, sem fjallar um fjölmiðla fyrir The Washington Post. „Ég held Trump blási það svolítið upp hvað honum mislíkar við okkur, hvað hann er ókurteis við okkur, smánar okkur. Raunveruleikinn er sá held ég að á laun, og jafnvel ekki svo mikið á laun, kunni hann virkilega vel við okkur. Hann elskar athyglina og hefur notað hana sér í vil og hefur í raun daðrar við fjölmiðla að mörgu leyti.“ Trump viðrar sig upp við fjölmiðla með því að nota handritaða minnismiða annað hvort til að hrósa þeim eða hamra á – og hann kunni sitt fag. „Trump er forframað fjölmiðladýr. Hann hefur starfað með fjölmiðlum í New York sem gengur harðar fram en aðrir. Hann kann á þá og hvernig nota megi fjölmiðlana til að koma skilaboðum sínum á framfæri,“ segir Farhi.

Spurningin sem brennur hvað heitast núna er hvort áframhald verði á sápuóperunni dramatísku næstu út kjörtímabil Trumps. Jake Sherman hjá tímaritinu Politico í Washington DC, segir við fréttastöðina CBN News að engin ástæða sé til að halda annað. „Donald Trump stendur á sjötugu, hann breytist ekki. Standi væntingar okkar til meiri háttar stefnubreytingar eða verulegrar atferlisbreytingar þá rætast þær vonir ekki. Hann er sá sem hann er og því fær enginn breytt þegar svo langt er komið.“

Trump er sagður hafa áhuga á að breyta meiðyrðalöggjöfinni svo auðveldara verði að lögsækja blaðamenn og fjölmiðla fyrir fréttir þeirra og frásagnir vegna rógburðar eða ærumeiðinga og níðs. Það gæti fært harðnandi stríð forsetans og fjölmiðla á annað og enn ófriðlegra stig.

Almenningur óhress

Bandarískum almenningi er ekki skemmt yfir átökum Trumps og fjölmiðla. Forsetinn kvartar sýknt og heilagt yfir „falsfréttum“ og kallar í staðinn yfir sig ásakanir, meðal annars um að hann fari frjálslega með sannleikann. Nýleg könnun rannsóknastofnunarinnar Pew Research Center bendir til að óháð flokksböndum, aldri, tekjum eða nánast hvaða miðviðun sem er, líki almenningi ekki aðfarirnar. Samband Trump og fjölmiðla er óheilbrigt sögðu 83% aðspurðra og 73% sögðu stríð forsetans og fjölmiðla flækjast fyrir aðgengi almennings að mikilvægum fréttum.

Listaverk sem sýnir þau orð sem Donald Trump skrifar oftast …
Listaverk sem sýnir þau orð sem Donald Trump skrifar oftast á Twitter. Myndin er byggð á upplýsingum frá því fyrir einu ári. AFP

Litlar vonir voru um að ástandið breyttist. Blaðamenn væru drifnir áfram af því markmiði að láta stjórnmálamenn sæta ábyrgð og litlar líkur á að þeir myndu slaka á klónni til að þóknast stjórnvöldum. Aðrar kannanir benda til að skynjun fólks á áreiðanleika fjölmiðla skiptist í tvö horn. Íhaldssamir Bandaríkjamenn og stuðningsmenn Trumps vantreysta helstu fjölmiðlunum mun meira en frjálslyndari landsmenn og demókratar.

Traust til Bandaríkjaforseta hefur aldrei verið minna. Í könnun Rasmussen Reports frá í fyrradag kveðast aðeins 39% líklegra kjósenda sáttir við frammistöðu Donalds Trump í starfi og 61% ósátt. Er þetta í fyrsta sinn frá embættistöku hans sem hlutfallið fer niður fyrir 40%. Af þessum segjast 26% afar ánægð með embættisfærslu forsetans en 49% á öndverðum meiði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert