Á heimleið úr þrælkunarbúðum

Mynd frá réttarhöldum yfir Lim síðla árs 2015.
Mynd frá réttarhöldum yfir Lim síðla árs 2015. AFP

Kanadísk­ur prest­ur sem hef­ur setið í fang­elsi í Norður-Kór­eu und­an­far­in ár hef­ur verið lát­inn laus af heilsu­fars­ástæðum og er nú á leið til síns heima samkvæmt fregnum frá fjölskyldu hans.

Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu greindi frá því að Hyeon Soo Lim, sem fædd­ist í Suður-Kór­eu og er 62 árs, hafi fengið reynslu­lausn af mannúðarástæðum.

„Við erum fegin að heyra að Lim er loks á leiðinni heim. Þar mun hann hitta fjölskyldu sína aftur og hitta barnabarn sitt í fyrsta skipti,“ kom fram í yfirlýsingu frá Lisu Pak talsmanni fjölskyldu Lim vegna málsins. Þar kom einnig fram að fjölskyldan gæti ekki beðið eftir því að hitta Lim.

Sendinefnd á vegum kanadískra yfirvalda hafði verið send til Norður-Kóreu til að fá prestinn lausan. 

Pak þakkaði kanadískum yfirvöldum sem unnu að því bak við tjöldin að fá Lim lausan. Auk þess þakkaði hún sænskum diplómötum sem aðstoðuðu við málið.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagðist í yfirlýsingu vera ánægður og feginn að geta staðfest að Lim væri laus úr haldi. Hann bætti því við að presturinn yrði fljótlega umkringdur vinum og vandamönnum í Kanada.

Lim var hand­tek­inn í Norður-Kór­eu í janú­ar 2015 eft­ir að hann fór þangað frá Kína. Kirkja prests­ins seg­ir að hann hafi aðeins starfað að mannúðar­mál­um í Norður-Kór­eu.

Lim var dæmd­ur í lífstíðar­vist­un­ar í þrælk­un­ar­búðum og hef­ur heilsu hans hrakað mjög frá því hann hóf afplán­un. Snemma á síðasta ári birtust fregnir þess efnis að Lim ynni við að grafa holur átta klukku­stund­ir á dag, sex daga vik­unn­ar, í ald­ing­arði við fanga­búðirn­ar þar sem hann dvaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert