Johnson kennir Norður-Kóreu um ástandið

Boris Johnson tjáði sig um deilu Norður-Kóreu og Bandaríkjanna á …
Boris Johnson tjáði sig um deilu Norður-Kóreu og Bandaríkjanna á Twitter. AFP

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, kennir Norður-Kóreu um pattstöðuna sem komin er upp á milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna. Hann vill sjá diplómatíska lausn á vandamálinu. AFP fréttastofan greinir frá.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Norður-Kórea hafa skipst á hót­un­um að und­an­förnu og skemmst er að minn­ast þess þegar Trump hótaði að láta rigna „eldi og brenni­steini“ yfir landið. En Norður-Kórea hefur hótað eldflaugaárásum á eyjuna Gvam í Kyrrahafi þar sem Bandaríkjamenn starfrækja herstöð.

Norður-Kórea hefur hótað eldflaugaárásum á Gvam.
Norður-Kórea hefur hótað eldflaugaárásum á Gvam. AFP

Johnson tjáði sig um málið á Twitter fyrr í dag í nokkrum tístum. „Það eru stjórnvöld í Norður-Kóreu sem bera ábyrgð á þessari stöðu og þau verða að laga hana. Alþjóðasamfélagið hefur sameinast um að sannfæra Norður-Kóreu að láta af fyrirhugðum hernaðaraðgerðum. Við erum að vinna að því með Bandaríkjamönnum og bandamönnum okkar á svæðinu að fá diplómatíska lausn í þessari deilu.“

Trump hefur sagt að Bandaríkjaher sé tilbúinn að takast á við árásir Norður-Kóreu á Gvam og muni standa vörð um eyjuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert