Fundu björgunarvesti við Saltholm

Hjá Sjöräddningssällskapet starfa sjálfboðaliðar sem hafa verið að aðstoða við …
Hjá Sjöräddningssällskapet starfa sjálfboðaliðar sem hafa verið að aðstoða við leitina að Kim Wall. AFP

Sænskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í björgun leitaði vísbendinga um blaðakonuna Kim Wall á Eyrarsundi í gær. Leitarmennirnir fundu björgunarvesti skammt frá eyjunni Saltholm í nágrenni Eyrarsundsbrúarinnar. Töldu þeir fundinn „áhugaverðan“ en danska lögreglan er á öðru máli og telur ólíklegt að vestið tengist málinu á nokkurn hátt. Mikil umferð sjófarenda er um Eyrarsund á hverjum einasta degi.

Í frétt danska ríkissjónvarpsins segir að sænska fyrirtækið hafi farið með vestið til samstarfsfélaga sinna í Danmörku sem munu í dag koma því til dönsku lögreglunnar. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að vestið verði rannsakað en það verkefni sé þó ekki í forgangi. Þá verður svæðið þar sem vestið fannst ekki rannsakað sérstaklega í dag. Þegar hefur verið gerð ítarleg leit á þessu svæði undanfarna daga.

Lögreglan segist engu að síður ánægð með að fólk láti vita af hlutum sem finnast er gætu tengst rannsókninni á mannshvarfinu. Í gær greindi lögreglan frá því að ekki yrðu gefnar ítarlegar upplýsingar um gang rannsóknarinnar og leitarinnar í sjónum að svo stöddu. 

Horfin í sex sólarhringa

Tæplega sex sólarhringar eru frá því að kafbáturinn Nautilus lagði úr höfn í Kaupmannahöfn. Um borð var blaðakonan Wall og eigandi bátsins, Peter Madsen. Báturinn sökk á Eyrarsundi næsta dag en Madsen var bjargað í land. Wall var þá hvergi að finna og enn hefur ekkert til hennar spurst. 

Lögreglan hefur óskað eftir upplýsingum frá almenningi sem geti varpað ljósi á hvar kafbáturinn var milli kl. 20.30 á fimmtudagskvöld, er hann sást síðast, og um kl. 10 að morgni föstudagsins er samband náðist loks við hann. 

Peter Madsen var á laugardag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. september. Hann er grunaður um að hafa drepið Wall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert