Sprengjubeltin reyndust vera gervi

Lögregla flytur á brott Audi A3 bifreiðina sem fimmmenningarnir notuðu …
Lögregla flytur á brott Audi A3 bifreiðina sem fimmmenningarnir notuðu til að aka á gagnandi vegfarendur í Cambrils í gærkvöldi. AFP

Sprengjubeltin sem fimmmenningarnir sem spænska lögreglan felldi í bænum Cambrils í gærkvöldi klæddust reyndust ekki vera ekta. Þetta hefur spænska dagblaðið El Pais eftir katalónskum yfirvöldum.

Greint hafði verið frá því að spænska lög­regl­an hefði fellt fimm meinta hryðju­verka­menn í Cambrils, sem er um 100 km suður af Barcelona. Menn­irn­ir voru sam­an í bíl sem ók á gang­andi veg­far­end­ur með þeim af­leiðing­um að einn lést og sjö særðust, að sögn BBC, þar af einn al­var­lega. Skaut lög­regla á bíl­inn til að stöðva för hans, en einn hinna særðu er lög­reglumaður.

Spænsk­ir fjöl­miðlar segja bíl mann­anna hafa farið á hvolf, þeir hafi hins veg­ar verið fljót­ir að koma sér út og lög­regla hafi þá skotið á þá. Fjórir þeirra létust á staðnum, en einn lést á sjúkrahúsi af sárum sínum

Lög­regla hefur greint frá því að hún telji þá tengj­ast árás­inni í Barcelona fyrr um dag­inn.

Guardian segir þá sem stóðu fyrir árásinni á London Bridge og Borough-markaðinn nú í júní hafa beitt svipaðri aðferð. Allir þrír árásarmennirnir þar hafi klæðst leðurbeltum með áföstum plastflöskum sem búið var að vefja silfurlitu límbandi til að líkja eftir sprengjubelti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert