Tugir þúsunda Sýrlendinga á heimleið

Sýrlenskir flóttamenn standa í biðröð við landamærin.
Sýrlenskir flóttamenn standa í biðröð við landamærin. AFP

Tugir þúsunda Sýrlendinga sem flúðu til Tyrklands vegna sýrlensku borgarastyrjaldarinnar hafa snúið aftur til heimalandsins tímabundið til að fagna trúarhátíð múslima.

Tæplega þrjár milljónir Sýrlendinga hafa fengið hæli í Tyrklandi síðan styrjöldin braust út árið 2011. Mikill meirihluti þeirra býr í stórum borgum í stað flóttamannabúða.

AFP

Nokkur stöðugleiki hefur myndast á sumum svæðum í norðvesturhluta Sýrlands eftir aðgerðir tyrkneska hersins gegn vígamönnum og vopnahléið sem stjórnvöld í Tyrklandi og Rússlandi studdu fyrr á þessu ári.

Yfirvöld í héraðinu Kilis í suðurhluta Tyrklands sem á landamæri að Sýrlandi hafa sett á fót sérstakt kerfi þar sem Sýrlendingar geta farið heim vegna fórnarhátíðarinnar og snúið svo aftur til Tyrklands að henni lokinni.

AFP

Fólk sem skráir sig á netinu hefur tíma til miðvikudags til að fara yfir Oncupinar-landamærin. Það þarf að snúa aftur fyrir 15. október.

AFP

Sýrlenskar fjölskyldur stóðu í löngum biðröðum við landamærin í morgun til að komast til heimalandsins. Að sögn tyrknesks starfsmanns hafa yfir 40 þúsund Sýrlendingar farið yfir landamærin síðan það varð leyfilegt 15. ágúst en um fjögur þúsund fara þangað yfir á hverjum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert