„Allir eru á leiðinni norður“

„Í gærkvöldi fór ég út í matvörubúð og það var …
„Í gærkvöldi fór ég út í matvörubúð og það var ekki hægt að fá brauð og allur dósamatur var farinn,“ segir Lára sem búsett er í Miami. AFP

„Ég hugsa að ég fari til foreldra minna í Daytona Beach í dag. Þegar fellibylurinn nær þangað verður hann búinn að vera yfir landi í smá tíma svo vonandi verður hann ekki eins sterkur,“ segir Lára Gunnarsdóttir Jónasson í samtali við mbl.is. Lára er kennari og hefur verið búsett í Miami í Flórída síðan 1993.

Lára var mætt í vinnuna þegar mbl.is heyrði í henni á ellefta tímanum í morgun, en á leiðinni segist hún hafa ekið fram hjá fjórum bensínstöðvum þar sem allt bensín var uppselt. „Í gærkvöldi fór ég út í matvörubúð og það var ekki hægt að fá brauð og allur dósamatur var farinn. Við erum að gera okkur tilbúin en það standa allir saman, fólk vill fá hlutina sem það þarfnast en það er enginn dónaskapur sem tíðkast því miður oft hérna í Miami. Hver fjölskylda má aðeins fá tvo kassa af vatni og það eru raðir úti um allt.“

„Allir eru á leiðinni norður. Fólk er þegar farið að koma frá Key West. Margir fara til Orlando og ég veit um fjölskyldur sem hafa reynt að bóka sér herbergi þar en það er allt uppselt og flugin líka. Fólk reynir að bóka sig hvert sem er en það er annað hvort uppselt eða verðið er komið upp í 2,000 dollara fyrir flug rétt til Atlanta.“

Fjölskylda mannsins hennar Láru var stödd í Miami þegar fellibylurinn Andrew reið yfir árið 1992, en hann var af stærðargráðu 5 rétt eins og Irma sem nú stefnir óðum á Flórídaskaga. „Þau misstu þak og talsvert tjón varð á húsinu þeirra. Í kring um mitt hús eru um 10 stór mangó- og avókadótré sem gætu farið í vindinum. En Andrew skall á Suður-Flórída og þá var hægt að keyra upp til Fort Lauderdale og þar var matur í búðunum en Irma á að fara upp allan skagann svo það eru allir að fara út í búð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert