Guterres: Ástandið ekki verið verra í áraraðir

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að deilan í tengslum við kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu sé ein sú versta í áraraðir og að hann hafi miklar áhyggjur af þróun mála. 

Guterres lét ummæli falla í viðtali við franska dagblaðið Le Journal du Dimanche. Hann segir að stríðsátök hefjist oft í kjölfar vel ígrundaðar ákvörðunartöku en það geti einnig brotist úr styrjaldir þar sem menn gangi sofandi að feigðarósi. 

„Við skulum vona að alvara þessarar ógnar færi okkur yfir á veg skynseminnar áður en það verður um seinan,“ sagði Guterres.

„Þetta er það alvarlegasta [hættuástand] sem við höfum staðið frammi fyrir árum saman,“ sagði hann og bætti við að hann væri afar áhyggjufullur. 

Guterres segir að lykilatriði sé að fá Norður-Kóreu til að stöðva kjarnorku- og eldflaugatilraunir sínar og að þarlend stjórnvöld virði þær ályktanir sem samþykktar eru hjá öryggisráði SÞ. 

„Við verðum einnig að sýna samstöðu hjá öryggisráðinu hvað sem það kostar, því þetta er eina stjórntækið sem hægt er að beita svo að diplómatískar aðferðir skili árangri,“ sagði hann. 

Bandarísk stjórnvöld vilja að öryggisráðið greiði á morgun atkvæði um hertar refsiaðgerðir gagnvart stjórnvöldum í Norður-Kóreu. Rússar og Kínverjar eru því andvígir. 

Bandaríkin hafa lagt fram tillögun að ályktun þar sem kallað er eftir því að olíuflutningar til N-Kóreu verði bannaðir, eignir Kim Jong-un verði frystar sem og fleiri efnahagsþvinganir. 

Heimildarmenn halda því fram að Rússar og Kínverjar séu að mestu alfarið á móti fyrirhuguðum aðgerðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert