Fjórar milljónir án rafmagns vegna Irmu

Pálmatré voru meðal þess sem lét undan veðurofsa Irmu á …
Pálmatré voru meðal þess sem lét undan veðurofsa Irmu á Miami. AFP

Fellibylurinn Irma fer nú yfir borgina Tampa á vesturströnd Flórída. Vindhraðinn er Irma gekk á land á Marco eyju rétt utan við Flórída var 192 km/klst, en Irma hefur nú tapað nokkru af sínum fyrri styrk og flokkast nú sem fyrsta stigs fellibylur.

Tæplega fjórar milljónir heimila í Flórídaríki eru nú án rafmagns og hlutar Miami borgar liggja undir vatni, en rúmlega 6,3 milljónir Flórídabúa voru beðnar um að yfirgefa heimili sín vegna komu Irmu.

BBC segir staðfest að þrír haf látið lífið í tengslum við ferð Irmu upp Flórídaskaga, en staðfest hefur verið að Irma hafi kostað 28 lífið hið minnsta er hún lenti á eyjum Karíbahafs í síðustu viku.

Víða flæðir um götur Miami eftir komu Irmu.
Víða flæðir um götur Miami eftir komu Irmu. AFP

Irma „stórt skrýmsli“

Vindhraði Irmu þessa stundina mælist nú um 160 km/klst að sögn bandarísku fellibyljastofnunarinnar NHC. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir hamfaraástandi á Flórída að beiðni Rick Scott, ríkisstjóra Flórida. Forsetinn hét ríkinu jafnframt neyðaraðstoð vegna fellibyljarins Irmu.

Trump lýsti fellibylnum sem „stóru skrímsli“ og lofaði alríkisstofnanirnar sem aðstoða íbúa og kvaðst sjálfur koma fljótt í heimsókn til Flórída.

Um fimmleytið í morgun var Irma um 20 km suðvestur af Lakeland, bæ norðaustur af Tampa. Þrjár milljónir manna búa við Tampaflóa, sem ekki hefur orðið fyrir stórum fellibyl frá því 1921.

Flugvöllurinn í lamasessi vegna vatnsskemmda

Irma er nú tekin að tapa styrk sínum og er vindstyrkur hennar komin niður í 137 km/klst. NHC spáir því að hún muni síðar í dag flokkast sem hitabeltisstormur og að hún ferð hennar liggi næst yfir norðurhluta Flórída eða Suðurhluta Georgíuríkis.

Ljóst er að skemmdir eftir fellibylinn eru víða miklar og segir CNN til að mynda óljóst hvenær millilandaflugvöllurinn Miami International Airport verði opnaður á ný, en hann hefur orðið fyrir „verulegum vatnsskemmdum“, að sögn forstjórans Emilio Gonzalez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert