Hicks nýr samskiptastjóri Trump

Hope Hicks, nýr samskiptastjóri Trump ásamt Gary Cohn, efna­hags­ráðgjafa Hvíta …
Hope Hicks, nýr samskiptastjóri Trump ásamt Gary Cohn, efna­hags­ráðgjafa Hvíta húss­ins. AFP

Hope Hicks hefur verið ráðin samskiptastjóri Donalds Trump, Bandaríkjaforseta. Hicks tók við stöðunni til bráðabirgða þegar forveri hennar í starfi, Anthony Scaramucci, var rekinn í júlí síðastliðnum eftir einungis 10 daga í starfi.

Frétt mbl.is: Scaramucci hættur

Hicks mun nú leiða samskiptateymi Hvíta hússins til frambúðar. Fjölmiðlafulltrúi Trump tilkynnti um ráðningu Hicks í morgun. NBC greinir frá.

Hicks er þriðja í röðinni til að gegna starfi samskiptastjóra Trump frá því að hann tók við embætti forseta í janúar á þessu ári. Mike Dubke var samskiptastjóri Trump á undan Scaramucci, en hann tilkynnti um uppsögn sína í maí.

Hicks, sem er 28 ára, hefur verið hluti af teymi Trump allt frá því að hann tilkynnti um framboð sitt í júní 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert