Hyggjast senda börn vígamanna úr landi

Börn að leik í Írak.
Börn að leik í Írak. AFP

Stjórnvöld í Írak hafa ákveðið að flytja 500 eiginkonur og 800 börn bardagamanna Ríkis íslams úr landi. Fólkið var handtekið í Mósúl, höfuðvígi hryðjuverkasamtakanna í Írak, þegar íraskar hersveitir náðu borginni aftur á sitt vald í júlí sl.

Konurnar og börnin dvelja nú í miðstöð í Tal Kayf, undir eftirliti öryggissveita. Farið verður yfir mál þeirra áður en þeim verður vísað úr landi, að sögn sveitarstjórnarfulltrúa í Nineveh-héraði.

Á sunnudag var fólkið flutt úr búðum í umsjá alþjóðlegra hjálparsamtaka um 60 km suður af Mósúl.

AFP hefur eftir hátt settum liðsmanni öryggissveitanna að um sé að ræða 509 konur og 813 börn af 13 þjóðernum. Heimildir herma að 300 séu frá Tyrklandi. Þá séu næstflestir frá Aserbaísjan, Rússlandi og Tadsíkistan.

Hundruð kvenna og barna hafa gefið sig fram við hersveitir Íraka og bardagasveitir Kúrda í kjölfar áhlaups þeirra gegn Ríki íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert