Norðurkóreskum fyrirtækjum gert að loka í Kína

Stjórnvöld í Peking hafa gripið til þessara aðgerða í kjölfar …
Stjórnvöld í Peking hafa gripið til þessara aðgerða í kjölfar alþjóðlegra refsiaðgerða sem SÞ hafa samþykkt að beita N-Kóreu vegna kjarnorkutilrauna þeirra. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa fyrirskipað norðurkóreskum fyrirtækjum sem starfa í Kína að hætta allri starfsemi vegna refsiaðgerða sem Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt gegn yfirvöldum í Norður-Kóreu.

Fram kemur á vef BBC, að fyrirtækjunum verði lokað í byrjun janúar. Norðurkóresk fyrirtæki sem eiga í samstarfi við fyrirtæki í Kína neyðast einnig til þess að hætta sinni starfsemi. 

Kína, sem er helsti bandamaður norðurkóreskra stjórnvalda, hefur einnig bannað viðskipti með vefnaðarvöru og takmarkað útflutning á olíu til N-Kóreu. 

Þetta er liður í aðgerðum alþjóðasamfélagsins sem beinast gegn N-Kóreu vegna sjöttu og öflugustu kjarnorkutilraun landsins. 

Öryggisráð SÞ, sem Kína á sæti í, samþykkti nýjar viðskiptaþvinganir einróma þann 11. september. 

Viðskiptaráðuneyti Kína segist hafa gefið fyrirtækjunum 120 daga frest til að hætta allri starfsemi við landamæri Kína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert