Tímasóun að semja við „eldflaugamanninn“

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að það væri tímasóun að reyna að semja við Norður-Kóreu. Löndin hafa átt í deilu en stjórnvöld í Washington eru óánægð með flugskeytatilraunir Norður-Kóreu.

„Ég sagði Rex Tillerson, okkar frábæra utanríkisráðherra, að hann væri að sóa tíma sínum með því að reyna að semja við litla eldflaugamanninn,“ skrifaði Trump á Twitter en með „litla eldflaugamanninum“ átti hann við Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Tillerson sagði í gær, eftir fund með Xi Jinping forseta Kína, að bandarísk stjórnvöld væru að þreifa fyrir sér varðandi möguleikann á viðræðum við Norður-kóreu.

Trump sagði ráðherranum að slaka á. „Sparaðu kraftana, Rex, við munum gera það sem þarf að gera!“ skrifaði Trump einnig á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert