Weinstein rekinn

Harvey Weinstein ásamt eiginkonu sinni Georgina Chapman.
Harvey Weinstein ásamt eiginkonu sinni Georgina Chapman. AFP

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur verið rekinn frá fyrirtækinu sem hann stofnaði á sínum tíma. Stjórn  Weinstein Company samþykkti þetta í gær en Weinstein hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart konum á vinnustað sínum í tæplega þrjá áratugi.

Stjórn fyrirtækisins segir að í ljósi nýrra upplýsinga um brot hans hafi hún ákveðið að reka hann frá störfum. Uppsögnin tekur gildi strax. Undir þetta rita stjórnarmennirnir Robert Weinstein, Lance Maerov, Richard Koenigsberg og Tarak Ben Ammar.

Fyrirtæki Harvey Weinstein,  Miramax og Weinstein Company hafa framleitt nokkrar myndir sem hafa fengið Óskarsverðlaun. Myndir eins og Shakespeare in Love, The King's Speech og The Artist.

Í kjölfar frétta New York Times þar sem Weinstein var sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart konum baðst Weinstein, sem er 65 ára gamall, afsökunar og sagðist ætla að draga sig í hlé frá störfum tímabundið.

„Hegðun mín gagnvart vinnufélögum sér áður hefur valdið miklum kvölum og ég biðst innilega afsökunar á því,“ sagði Weinstein á sínum tíma. Hann gagnrýndi hins vegar fréttir NYT síðar en þar kom meðal annars fram að hann hafi náð samkomulagi við átta konur hið minnsta og þannig komist hjá saksókn.

Lögmaður Weinstein, Lisa Bloom, sagði í síðustu viku að sumar ásakanir á hendur honum væri lygi. Hann hafi gert mistök og hegðað sér eins og gömul risaeðla. En hann hefði lært á mistökunum meðal annars með ráðgjöf og lestri bóka. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert