100 liðsmenn Ríkis íslams gefast upp

Eyðileggingin í borginni Raqa í norðurhluta Sýrlands er gríðarleg.
Eyðileggingin í borginni Raqa í norðurhluta Sýrlands er gríðarleg. AFP

Tugir liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams í sýrlensku borginni Raqqa hafa gefist upp síðastliðinn sólarhring. Hersveitir sem Bandaríkjamenn styðja reyna nú sína lokatilraun til að endurheimta borgina.

„Á síðasta sólarhring hafa um það bil 100 liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams gefist upp og verið fjarlægðir úr borginni,“ segir í yfirlýsingu hersveitar bandamanna sem send var til AFP fréttastofunnar.

Erlendum liðsmönnum er hins vegar ekki leyft að yfirgefa borgina.

Talsmaður mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights greinir frá því að allir sýrlenskir liðsmenn Ríki íslams, um 200 talsins, hafi nú yfirgefið borgina ásamt fjölskyldum sínum. Samtökin lögðu áherslu á það í viðræðunum um borgina að fjölskyldur liðsmannanna myndu fylgja þeim ef þeir lögðu niður vopn sín.

Yfirvöld í Raqqa greina frá því að sýrlenski lýðræðisherinn, bandalag hersveita Kúrda og araba, reyni nú að ná fullum yfirráðum í borginni. Um 150 erlendir liðsmenn Ríki íslam eru eftir í borginni og standa viðræður um örlög þeirra nú yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert