Fjöldi ólöglegra innflytjenda „öryggisógn“

Danskir lögreglumenn.
Danskir lögreglumenn. AFP

Dönsk stjórnvöld tilkynntu á fimmtudaginn að þau ætluðu að framlengja hefðbundið landamæraeftirlit gagnvart öðrum ríkjum innan Schengen-svæðisins fram í maí 2018 en slíkt eftirliti hefur ítrekað verið framlengt víða innan svæðisins undanfarin ár.

Fram kemur í bréfi dönsku ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins að þetta væri meðal annars gert af öryggisástæðum vegna hælisleitenda sem neitað hefði verið hæli í Þýskalandi og færu í kjölfarið huldu höfði til að komast hjá brottvísun.

„Mikill fjöldi ólöglegra innflytjenda og fólks sem neitað hefur verið um hæli og bíður eftir því að verða vísað úr landi í Þýskalandi felur í sér raunverulega öryggisógn,“ segir í bréfi danskra ráðamanna þar sem færð eru rök fyrir ákvörðuninni um frekara eftirlit.

Þar segir að hætta sé á að hryðjuverkasamtök nýti sér óljósa stöðu þessa fólks. Haft er eftir Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í dönsku ríkisstjórninni, að ekki væri hægt að loka augunum fyrir þeirri hryðjuverkaógn sem Danir stæðu frammi fyrir.

Danir gripu til hefðbundins landamæraeftirlits í janúar 2016 í kjölfar þess að mikill fjöldi hælisleitenda og förufólks komst inn fyrir ytri mörk Schengen-svæðisins í gegnum ríki á Balkanskaganum og hefur eftirlitið verið til staðar allar götur síðan.

Þjóðverjar ætla einnig að framlengja landsmæraeftirlit sitt gagnvart Austurríki. Schengen-samstarfið gengur út á að afnema hefðbundið landamæraeftirlit á milli aðildarríkja samstarfsins en efla það á ytri mörkunum. Ísland er aðili að samstarfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert