Verður yngsti þjóðarleiðtogi Evrópu

Formaður Flokks fólksins,ÖVP,  Sebastian Kurz, hefur lýst yfir sigri í þingkosningum í Austurríki í dag. Allt bendir því til þess að Kurz verði yngsti þjóðarleiðtogi Evrópu. Hann er 31 árs. 

Samkvæmt útgönguspám fær ÖVP 31,7% atkvæða. Jafnaðarmenn eru með 27% og Frelsisflokkurinn (FPÖ) er með 25,9%. Þetta þýðir að hægri flokkarnir tveir ÖVP og FPÖ geta myndað meirihlutastjórn. 

Sá sem gengur á vatni

Kurz hefur gegnt embætti utanríkisráðherra frá árinu 2013 en þá var hann yngsti utanríkisráðherra í Evrópu sögulega séð, aðeins 27 ára gamall. Í maí 2017 tók hann við sem formaður ÖVP en hann hefur starfað lengi með flokknum. Fyrst ungliðahreyfingunni og síðar borgarfulltrúi í Vín. Kurz er oft kallaður Wunderwuzzi - sem þýðir í lauslegri þýðingu - sá sem getur gengið á vatni. Honum hefur verið líkt við aðra unga leiðtoga, svo sem Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada.

Flokkur fólksins, ÖVP, hefur verið við völd í meira en 30 ár í Austurríki en Kunz hefur breytt flokknum í Nýr flokkur fólksins. 

Eitt helsta stefnumál hans eru málefni innflytjenda en Kurz breytti stefnu flokksins í málefnum flóttafólks þegar flóttamönnum fjölgaði í Evrópu árið 2015. Hann biðlaði til íhaldssamra og hægri sinnaðra kjósenda með loforðum um að loka leiðum hælisleitenda til Evrópu, segir í frétt BBC og AFP fréttastofunnar. Loka fyrir greiðslur til flóttafólks af hálfu ríkisins og koma í veg fyrir að innflytjendur fái greiðslur úr almannatryggingakerfinu fyrr en þeir hafa búið í Austurríki í fimm ár. 

Kurz segist sjálfur vera ferskur andvari inn í stjórnmálinn. Hann ætli að lækka skatta og draga úr skriffinnsku á sama tíma og hann ætli sér að herða reglur varðandi innflytjendur.

„Ég heiti því að ég mun berjast fyrir miklum breytingum í þessu landi. Það er kominn tími á nýja sýn í stjórnmálum og nýja menningu í þessu ríki,“ sagði Kurz í dag. 

Mun líklegra þykir að Kurz vilji stjórnarsamstarf við popúlistaflokk Heinz-Christian Strache, FPÖ, en jafnaðarmenn, en ekkert er samt öruggt í þeim efnum, segja félagar í Flokki fólksins sem Guardian ræddi við í dag. Bíða verði og sjá hvernig staðan verður þegar talningu er lokið. Stjórn verði mynduð með þeim flokki sem líklegastur er til þess að taka þátt í að ná fram helstu stefnumálum og breytingum með flokknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert