Kona lést í óveðrinu á Írlandi

Frá Norður-Írlandi.
Frá Norður-Írlandi. AFP

Rafmagnslaust er á um 120 þúsund heimilum og fyrirtækjum á Írlandi en þar geisar óveður. Allir skólar eru lokaðir í dag og óttast yfirvöld það versta. Kona lést þegar tré féll á bíl hennar í Vestur-Waterford í morgun. 

Ophelia, sem er kröftugasti stormurinn svo austarlega á Atlantshafi, nam land á Bretlandseyjum í morgun. Hæsta viðbúnaðarstig ríkir alls staðar á Írlandi fram til miðnættis.

Herinn hefur verið kallaður út á Írlandi vegna veðurofsans en varað hefur verið við óveðrinu víðar á Bretlandseyjum, svo sem Norður-Írlandi, Wales, Skotlandi og Mön.

Strandbærinn Donaghadee.
Strandbærinn Donaghadee. AFP

Vindhraðinn hefur mælst 49 metrar á sekúndu við suðurströnd Írlands í morgun og er óttast að það geti tekið nokkra daga að koma á rafmagni á einhverjum stöðum við ströndina. Mikil úrkoma fylgir rokinu og má búast við flóðum við ströndina. 

Nánast öllu flugi var aflýst til og frá Cork í dag en þar segja flugvallaryfirvöld að aldrei í 56 ára sögu flugvallarins hafi verið jafn hvasst og nú. Um 130 flugferðum um Dublin var frestað eða aflýst. Eins hefur einhverjum flugferðum um Shannon flugvöll verið frestað eða aflýst. Hluta af járnbrautakerfi Írlands var lokað og hraðatakmarkanir settar á lestarsamgöngur.

Forsætisráðherra Írlands, Leo Varadkar, biður fólk að halda sig innandyra þangað til óveðrið gengur yfir og biður fólk að gæta að nágrönnum og eldra fólki. Hann biður fólk að fara varlega þegar rokið gengur yfir því víða hafi tré rifnað upp með rótum og rafmagnslínur liggja á jörðinni. 

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert