Sex látnir eftir árás í New York

Lögreglan stendur vörð í New York eftir skotárásina.
Lögreglan stendur vörð í New York eftir skotárásina. AFP

Að minnsta kosti sex eru látnir og ellefu særðir eftir að ekið var á gangandi vegfarendur í Manhattan í New York.

Bíllinn ók á stétt fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðamenn.  

„Bíllinn ók á fjölda manns,” sagði í tísti lögreglunnar í New York. 

Vitni greindu frá því að árekstur hafi orðið og ein manneskja hafi hlaupið út úr einum bílanna með tvær byssur á lofti. Vitnin heyrðu hleypt af byssu í framhaldinu.

Einn hefur verið handtekinn vegna árásarinnar.

Lögreglan í New York hvatti fólk til að halda sig frá fjölmennum svæðum.

Eitt vitni sagðist í samtali við ABC hafa séð hvítan pallbíl á akrein fyrir hjólreiðamenn á mikilli ferð og hann hafi ekið á þó nokkrar manneskjur. Hann sagðist einnig hafa heyrt níu til tíu skothvelli, að því er BBC greindi frá. 

AFP-fréttastofan segir frá því að eftir að hafa ekið á fólk í pallbílnum hafi árásarmaðurinn lent í árekstri við annan bíl. Við það fór hann út úr pallbílnum og hélt á eftirlíkingum af byssum þegar hann var skotinn af lögreglunni og handtekinn.

Ekki er vitað um tilefni árásarinnar.

Maðurinn er sagður hafa hrópað Allah Akbar þegar hann steig út úr bílnum. 

„Þegar löggurnar skutu hann hlupu allir í burtu og allt varð frekar klikkað hérna. Þegar ég horfði aftur á staðinn var maðurinn kominn niður í jörðina,” sagði einn sjónarvottur.

Þetta er fyrsta atvikið þar sem fjöldi fólks er drepinn í New York síðan fyrrverandi liðsmaður bandaríska sjóhersins ók á gangandi vegfarendur á Times-torgi 18. maí síðastliðinn. 18 ára stúlka lét lífið og 22 særðust.

Árásarmaðurinn er sagður hafa ekið pallbíl sínum á skólarútu, samkvæmt New York Times. 




AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert