Loftmengunin 30 sinnum meiri en hámark WHO

Byggingaverkamenn á vinnusvæði í Delhi í dag. Mikil mengun liggur …
Byggingaverkamenn á vinnusvæði í Delhi í dag. Mikil mengun liggur nú yfir borginni. AFP

Skelfing hefur gripið um sig í Delhi, höfuðborg Indlands, eftir að íbúar vöknuðu í morgun í þykku mengunarskýi. BBC segir skyggni í borginni vera mjög slæmt, en mengunin sé nú á sumum svæðum 30 sinnum meiri en sem nemi hámarki Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO).

Indversku læknasamtökin (IMA) hafa lýst yfir heilsufarslegu neyðarástandi og hvetja stjórnvöld til að gera allt sem á þeirra valdi er til að „vinna bug á ógninni“.

Hafa Delhibúar verið duglegir að birta myndir af mengunarþokunni á samfélagsmiðlum sem þykir sýna umfang vandans. Hafa margir samfélagsmiðlanotendur einnig kvartað yfir öndunarerfiðleikum vegna mengunarinnar.

Þá hafa samtök lækna einnig mælt með því að hætt verði við fyrirhugað hálfmaraþon sem halda á í borginni 19. nóvember nk. Á sumum stöðum í Delhi, hefur að sögn indversku veður- og loftslagstofunnar, mælst allt að 700 míkrógrömm á hverjum rúmmetra af örsmáum ögnum svo nefndum PM 2.5 sem komast djúpt ofan í lungun.

Þá hefur Arvind Kejriwal ráðherrann sem fer með stjórn Delhi farið þess á leit við menntamálaráðherrann að skoðað verði að loka skólum í nokkra daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert