N-Kórea: Ákvörðun Bandaríkjanna ögrun

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, ræðir við hershöfðingja í her landsins.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, ræðir við hershöfðingja í her landsins. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu fordæmdu í dag þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að setja ríkið á lista yfir hryðjuverkaþjóðir. Segja þau ákvörðunina vera alvarlega ögrun og vöruðu á sama tíma við því að viðskiptaþvinganir muni aldrei fá Norður-Kóreu til að hætta við kjarnorkuáætlun sína.

Donald Trump Bandaríkjaforseti setti fyrr í vikunni Norður-Kóreu á lista þeirra ríkja sem styðja hryðjuverk, en tæpur áratugur er frá því að George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, tók ríkið af listanum. 

Þá kynntu bandarísk stjórnvöld einnig nýjar viðskiptaþvinganir sem beint er gegn norður-kóreskum flutningsfyrirtækjum, sem og kínverskum kaupsýslumönnum sem eiga í viðskiptum við Norður-Kóreu. Vilja þau með þessu auka enn frekar þrýsting á Norður-Kóreu að hætta við kjarnorkuáætlun sína.

„Her okkar og þjóð eru full reiði og heiftar í garð þeirra svívirðulegu glæpamanna sem dirfast að setja nafn okkar helga lands á þennan fyrirlitlega hryðjuverkalista,“ hafði norðurkóreska ríkissjónvarpið NCNA  eftir talsmanni í utanríkisráðuneyti landsins.

Fordæmdi hann bandaríska ráðamenn fyrir að haga sér eins og „alþjóðlegur hryðjuverkadómari“, og sagði því næst ákvörðun Bandaríkjanna augljóslega vera „fáránlega og að með því hafi þau heimsfrið og öryggi að spotti“.

„Kjarnavopnin eru aðferð Norður-Kóreu til að tryggja fullveldi okkar,“ segir í fréttinni.

Á meðan að bandarísk stjórnvöld viðhaldi fjandsamlegri stefnu sinni í garð Norður-Kóreu verði þau sannfærðari um þá ákvörðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert