Fjórir Palestínumenn létust

Átök brutust út, eldflaugum var skotið og loftárásir gerðar á Gaza í gær í kjölfar umdeildrar ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem viðurkennt hefur Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Fjórir Palestínumenn féllu í gær og í morgun og tugir hafa særst.

Trump og þar með Bandaríkin standa ein með ákvörðuninni. Ekkert annað ríki hefur tekið undir hana. 

Í gær var harðlega mótmælt á Gaza og að minnsta kosti þremur eldflaugum skotið yfir til Ísraels. Eldflaugavarnakerfi landsins skaut að minnsta kosti eina þeirra niður, að sögn ísraelska hersins. Ein hafnaði á berangri en sú þriðja lenti í borginni Sderot í suðurhluta Ísraels. Ísraelska útvarpið segir að flaugin hafi ekki sprungið og ekkert mannfall orðið.

Í kjölfar tveggja fyrstu eldflaugaskotanna svaraði ísraelski herinn með loftárásum á tvö hernaðarmannvirki Hamas-samtakanna á Gaza. Heilbrigðisráðuneyti segir að fjórtán hafi særst í þeirri árás. Snemma í morgun héldu árásirnar áfram og segja yfirvöld á Gaza að tveir hafi fallið í þeim árásum.

Í gær létust tveir Palestínumenn í átökum við ísraelska hermenn við girðingar sem skilja Gaza frá Ísrael. Þetta er fyrsta mannfallið sem verður á svæðinu eftir að Trump tilkynnti um ákvörðun sína. Tugir særðust er gúmmíkúlum var skotið á mannfjöldann sem var að mótmæla m.a. á Vesturbakkanum og á Gaza. Einnig voru mótmæli í Jerúsalem.

Skemmdir í kjölfar loftárásar Ísraela á hernaðarmannvirki Hamas-samtakanna á Gaza.
Skemmdir í kjölfar loftárásar Ísraela á hernaðarmannvirki Hamas-samtakanna á Gaza. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert