Vígamennirnir hraktir frá Írak

Stjórnarhernum í Írak tókst að ná völdum í Mósúl í …
Stjórnarhernum í Írak tókst að ná völdum í Mósúl í sumar. Stórir hlutar borgarinnar eru rústir einar eftir átökin. AFP

Það urðu vissulega tímamót í dag þegar forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, tilkynnti að stríðinu við vígasamtökin Ríki íslams í landinu væri lokið. Hann segir stjórnarherinn nú hafa náð fullkomu valdi á landamærunum að Sýrlandi.

Landamærasvæðið var það eina sem enn var undir yfirráðum vígamannanna allt þar til í nóvember er stjórnarherinn náði bænum Rawa á sitt vald að nýju. 

Fyrir tveimur dögum tilkynnti rússneski herinn að honum hefði tekist að sigra vígamennina í Sýrlandi. 

Ríki íslams sölsaði stór landssvæði í Sýrlandi og Írak undir sig árið 2014. Tilgangurinn var að stofna kalífadæmi sem næði yfir svæði sem telur um 10 milljón íbúa. 

Á síðustu tveimur árum hefur smám saman tekist að hrekja þá frá völdum. Ein stærsta orrustan vannst í júlí er Íraksher tókst að ná borginni Mósúl á sitt vald. Í síðasta mánuði gerðist slíkt hið sama í Raqqa í Sýrlandi sem hafði lengi vel verið nokkurs konar höfuðborg vígamannanna í Sýrlandi. 

Fregnir herma að hluti vígamannanna hafi lagt á flótta út í óbyggðir Sýrlands en einnig er talið líklegt að þeir hafi flúið til Tyrklands. 

Í fréttaskýringu BBC um málið segir að þó að þessir sigrar hafi unnist megi ekki líta svo á að baráttunni við uppgang hryðjuverkasamtakanna sé lokið, hvort sem litið er til Íraks, Sýrlands eða annarra landa heimsins. Enn eru ítök samtakanna, eins óskipulögð og þau virðast, nokkuð mikil og árásir sem framdar hafa verið síðustu misseri, m.a. í Evrópu, hafa yfirleitt verið í þeirra nafni.

„Óvinir okkar vildu útrýma okkar siðmenningu en við höfum haft sigur með því að standa saman,“ sagði forsætisráðherra Íraks í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert