Hvað verður um Ríki íslams?

Íraskur hermaður kyssir höfuð stúlku í miðbæ Mósúl. Sigur stjórnarhersins …
Íraskur hermaður kyssir höfuð stúlku í miðbæ Mósúl. Sigur stjórnarhersins var í höfn og vígamenn Ríkis íslams höfðu hörfað. AFP

Stjórnarher Íraks fagnaði sigri yfir vígamönnum Ríkis íslams í Mósúl á sunnudag. Eftir margra mánaða átök hafa samtökin misst yfirráð sín yfir borginni. Það sama er líklega að gerast í höfuðvígi þeirra í Sýrlandi, Raqqa. En hvað þýðir þetta? Er Ríki íslams að líða undir lok?

Á sjónvarpsmyndum frá Mósúl sem birtar voru á mánudag mátti sjá hermenn stjórnarhersins í Írak veifa byssum sínum sigri hrósandi. Það mátti einnig sjá þá leiða skelfda borgarbúa út úr rústum húsanna. Myndirnar eru sumar hverjar nokkuð áróðurskenndar. Enn á eftir að koma í ljós hver raunveruleg áhrif orrustunnar um Mósúl hafa verið og munu verða á líf Íraka. 

Mósúl, sem eitt sinn var fögur ásýndar með sínum fornu byggingum, er ekki svipur hjá sjón. Og óbreyttir borgarar hafa fengið að kenna á því síðustu ár undir ógnarstjórn vígamanna í yfirlýstu kalífadæmi þeirra. Á þeim hefur síðustu mánuði verið brotið af fulltrúum allra stríðandi fylkinga. „Refsa verður fyrir hryllinginn sem fólkið í Mósúl hefur orðið vitni að og fyrir skeytingarleysi allra stríðandi fylkinga gagnvart mannslífum,“ segir Lynn Maalouf sem stýrir Mið-Austurlandadeild Amnesty International. Mannréttindasamtökin krefjast þess að ítarleg rannsókn verði gerð á þeim stríðsglæpum sem þau segja hafa verið framin í Mósúl.

Hermenn fagna sigri yfir Ríki íslams í Mósúl. En hvað …
Hermenn fagna sigri yfir Ríki íslams í Mósúl. En hvað mun taka við? AFP

Á valdastóli í þrjú ár

Mósúl er önnur stærsta borg Íraks. Hún er norðarlega í landinu á svæði þar sem Ríki íslams hefur haft hvað mest ítök. Yfirráðasvæðið nær einnig yfir norðurhluta nágrannalandsins Sýrlands. 

Í júní árið 2014, fyrir sléttum þremur árum, brutust vígamenn hryðjuverkasamtakanna til valda í borginni og lýsti leiðtogi þeirra, Abu Bakr al-Baghdadi, yfir stofnun kalífadæmis. Sveitir vígamannanna höfðu ráðist inn í Írak frá Sýrlandi og náðu um þriðjungi landsins á sitt vald á nokkrum mánuðum. 

Abu Bakr al-Baghdadi stóð við hina fornu al-Nuri mosku í Mósúl er hann lýsti yfir stofnun kalífadæmisins. Moskan var sprengd í loft upp fyrir nokkrum vikum og fer tvennum sögum af því hver var þar að verki. Bandamenn, sem háð hafa orrustu um borgina í níu mánuði, segja vígamennina sjálfa hafa gert það er ljóst var að þeir myndu tapa völdum. Það hafi þeir gert til að koma í veg fyrir að stjórnarherinn gæti lýst yfir sigri við hina tignarlegu byggingu með táknrænum hætti. Ríki íslams segir hins vegar að moskan hafi verið eyðilögð í loftárásum Bandaríkjamanna.

Orrustan um Mósúl hófst síðasta haust og stóð í níu mánuði. Miklar mannfórnir voru færðar í bardögunum. Vígamennirnir notuðu saklausa borgara sem mannlega skildi og loftárásir stjórnarhersins og bandamanna hans voru tíðar. Hundruð þúsunda lögðu á flótta en sumir komust hvergi heldur urðu innlyksa á miðjum vígvellinum sem borgin var orðin.

Í Raqqa í Sýrlandi er enn barist en uppreisnarmenn, með miklum stuðningi Bandaríkjanna, hafa einangrað vígamennina á litlu svæði í borginni. Líklega er það aðeins tímaspursmál að þeir verði hraktir þaðan með öllu.

Klippt á fjárstreymið

Þegar mest lét réði Ríki íslams yfir um 90 þúsund ferkílómetrum landsvæðis í Írak. Vígamennirnir lögðu háa skatta á borgarana, sektuðu þá grimmt fyrir brot á ströngum lögum þeirra og rændu þá ef með þurfti. Þannig fjármögnuðu samtökin meðal annars starfsemi sína. Olían gaf einnig vel í aðra hönd en svo er ei lengur raunin. Bandamenn hafa markvisst gert árásir á borholurnar, hreinsistöðvarnar og olíuleiðslurnar sem og eyðilagt vegi og brýr á helstu flutningsleiðum. Olíuævintýrið er því úti á þessum slóðum.

Nú þegar ríki vígamannanna hefur hrunið í Mósúl og ekki er lengur hægt að stóla á skattana og olíuna, hefur fjárhagslegur grundvöllur samtakanna veikst verulega. Það mun draga úr getu þeirra til að þjálfa vígamenn sína og skipuleggja hernaðinn.

Endanlegur sigur ekki í höfn

Þótt helsta vígi þeirra í Írak sé fallið og því beri að fagna eru samtökin langt frá því sigruð, að mati Shiraz Maher, aðstoðardeildarstjóra við King's College í London.

Kollegi hans, Andreas Krieg, tekur enn dýpra í árinni og segir að nú, þegar tilraun til að viðhalda kalífadæmi í norðurhluta Íraks, hafi brugðist muni öfgamenn heimsins fara á „yfirsnúning“. 

„Í upphafi hafði Ríki íslams ekki sama metnað og al-Qaeda að ráðast á óvini sína í fjarska,“ segir hann í viðtali við Independent. „Samtökin voru staðbundin og mynduðu bandalög með staðbundnum hópum súnníta gegn hinum sameiginlega óvini, shítum.“ Nú hafi hins vegar orðið breyting á þessu. „Og ef það þýðir að ráðast skuli á Vesturlönd þá munu þeir gera það.“

Vígamenn Ríkis íslams hafa nú safnast saman á afmörkuðum landssvæðum í norðurhluta Íraks, úti í eyðimörkinni og handan hennar, á sömu slóðum og þeir fundu fylgjendur á sínum tíma. Sérfræðingar telja að innan fárra mánaða muni stjórnarhernum takast að flæma þá einnig þaðan. Enn eitt vígi þeirra má svo finna í Efrates-dalnum við borgina Deir Ezzor í austurhluta Sýrlands. Þar eru leiðtogar samtakanna nú sagðir vera í felum. 

En hvað svo? 

Þrýst er á samtökin úr öllum áttum. Orrustan um Raqqa er enn í gangi og takist að yfirbuga vígamennina þar er lítið eftir af veldi þeirra hvað yfirráðasvæði varðar. En hugmyndafræðin hefur enn hljómgrunn.

Hér stóð borg. Gamli borgarhlutinn í Mósúl er rústir einar …
Hér stóð borg. Gamli borgarhlutinn í Mósúl er rústir einar eftir loftárásir síðustu mánaða. AFP

Krieg segir að eina hernaðaráætlun vestrænna ríkja og stjórnvalda í Sýrlandi og Írak byggi einmitt nær eingöngu á hernaðaraðgerðum, ekki aðgerðum sem miði að því að útrýma eða kollvarpa hugmyndafræði þeirra. Jafnvel þó að vígamennirnir hafi verið reknir frá Mósúl sé enn að finna „frjósaman jarðveg“ fyrir öfgahópa af þessum toga í Írak. „Ríki íslams er ekki rótin að vanda Íraks heldur eitt af einkennum hans.“

Sumir telja að nú muni samtökin snúa sér að skæruhernaði og skyndiárásum. Í slíku eru þau „sérfræðingar“.

Svo er það spurningin um hvað – eða réttara sagt hverjir – taki við, því eins dauði er annars brauð. Tim Lister, fréttaskýrandi hjá CNN, telur hættu á að fókusinn fari nú af Ríki íslams, sem auki hættuna á því að grasrót samtakanna sæki aftur í sig veðrið. Þá minnir hann á aðra öfgahópa sem hafa látið til sín taka síðustu mánuði og eru að sumu leyti nokkuð óskrifað blað, m.a. í skugga átakanna í Jemen.

Sýrlensk stúlka sem bjó í Raqqa undir yfirráðum Ríkis íslams …
Sýrlensk stúlka sem bjó í Raqqa undir yfirráðum Ríkis íslams heldur á skothylki. Börnin í Sýrlandi og Írak hafa upplifað mikinn hrylling. AFP

Sárin gróa seint

Þó að verulega hafi dregið úr þeirri ógn sem stafað hefur af óbreyttum Írökum undir stjórn Ríkis íslams er langt í frá hægt að segja að stöðugleiki sé væntanlegur í Írak í nánustu framtíð. Síðustu misseri hafa ýmsir hópar vígbúist og vantraust ríkir milli ólíkra þjóðfélags- og trúarhópa. Sömu sögu er að segja frá Sýrlandi. Ríki íslams er aðeins einn anginn af hinum flókna vanda sem þar er við að glíma.

Fall Mósúl er talið mikilvægur áfangasigur í baráttunni gegn uppgangi Ríkis íslams. En hjartasár íbúanna verða lengi að gróa, bæði eftir valdatíð þeirra og orrustuna blóðugu sem stóð mánuðum saman og kostaði hundruð manna lífið.

Greinin er m.a. byggð á fréttum og fréttaskýringum CNN, BBC, Washington Post og Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert