Reyndi að kyssa fréttakonu á munninn

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Bandaríska fréttakonan Juliet Huddy, sem starfaði hjá sjónvarpsstöðinni Fox, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa reynt að kyssa sig á munninn í lyftu eftir að þau höfðu borðað saman í höfuðstöðvum hans Trump Tower í New York annað hvort árið 2005 eða 2006.

Haft er eftir Huddy á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að hún hafi hvorki óttast um öryggi sitt né verið ofboðið vegna framgöngu Trumps þó hún hafi orðið fyrir lítilsháttar áfalli. Fram kemur í fréttinni að frásögn Huddys rími við aðrar slíkar frá fleiri konum sem sagt hafi frá því að Trump hafi áreitt þær. Trump hefur neitað slíkum ásökunum.

Huddy sagðist hafa orðið hissa á að Trump skyldi reyna að kyssa hana á munninn en ekki aðeins kinnina. Hún segir Trump aldrei hafa reynt nokkuð slíkt aftur en hins vegar hafi hann gert grín að atvikinu síðar þegar hann kom í viðtalsþátt sem hún stjórnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert