Bíl ekið á mannfjölda í Melbourne

Hvíti jeppinn hafnaði á biðstöð fyrir sporvagna eftir að honum …
Hvíti jeppinn hafnaði á biðstöð fyrir sporvagna eftir að honum hafði verið ekið í gegnum mannfjöldann. AFP

Að minnsta kosti sextán eru særðir, þeirra á meðal ungt barn, eftir að bíl var ekið á gangandi vegfarendur í borginni Melbourne í Ástralíu klukkan 4.30 síðdegis að staðartíma, um 5.30 að íslenskum tíma. Lögreglan segir að um vísvitandi verknað hafi verið að ræða. 

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hafa fjórtán hafi verið fluttir á sjúkrahús. Einhverjir þeirra eru sagðir mjög alvarlega særðir. Sjónarvottur segir að bílnum hafi verið ekið á alla sem urðu í vegi hans. „Fólk flaug um allt.“

Á myndum af vettvangi má sjá fólk liggja á götunni umhverfis hvítan jeppa.

Jeppinn sem ók á mannfjöldann í Melbourne stöðvaðist ekki fyrr …
Jeppinn sem ók á mannfjöldann í Melbourne stöðvaðist ekki fyrr en hann ók á stoppistöð fyrir sporvagna. Skjáskot/News 7

Í frétt ástralska blaðsins Telegraph segir að atvikið hafi átt sér stað á horni Flinders-stræti og Elizabeth-stræti í hjarta borgarinnar. Fólkið var á leið til og frá aðallestarstöðinni á háannatíma er hvítum jeppa var ekið yfir á rauðu ljósi og á það. Lögreglan hefur handtekið bílstjórann og annan mann sem var á vettvangi. Sky-fréttastofan segir að seinni maðurinn sem var handtekinn hafi verið farþegi í bílnum. 

Meðal hinna slösuðu er barn á leikskólaaldri. Það hlaut höfuðáverka við áreksturinn og er ástand þess sagt alvarlegt. 

Í fréttum ástralskra fjölmiðla segir að för bílsins hafi ekki stöðvast fyrr en hann ók á biðstöð fyrir sporvagna. 

Fólk hefur verið beðið að halda sig fjarri vettvangi. „Við teljum, miðað við þær upplýsingar sem við höfum, að um vilja verk hafi verið að ræða,“ sagði lögreglustjórinn Russell Barrett á blaðannafundi eftir atvikið. 

Sjónarvottur sagði í samtali við útvarpsstöðina 3AW að hún hafi heyrt öskur. „Við heyrðum mikinn hávaða og þegar við litum til vinstri sáum við þennan hvíta bíl sem ók á allt sem fyrir varð.“

Í janúar létust sex er bíl var ekið á mannfjölda við Bourke-stræti í Melbourne.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert