Ungbarn með ólýsanlega áverka eftir loftárás

Barn fær aðhlynningu eftir loftárás á færanlegu sjúkrahúsi í Arbin …
Barn fær aðhlynningu eftir loftárás á færanlegu sjúkrahúsi í Arbin í Austur-Ghouta. AFP

Að minnsta kosti tíu sjúkrahús, sem eru á svæðum í Sýrlandi þar sem uppreisnarmenn fara með völd, hafa orðið fyrir árásum síðustu tíu daga. Þetta segja hjálparstarfsmenn á vettvangi.

Einn þeirra segir í samtali við BBC að árásirnar hafi ekki verið harðari í heilt ár. Starfsmaður hjá Sameinuðu þjóðunum segir að enn einu sinni séu sjúkrahús skotmörk í stríðinu.

Í dag létust að minnsta kosti sautján óbreyttir borgarar í átökum í Austur-Ghouta. Þar hafa uppreisnarmenn farið með völdin í nokkur ár en stjórnarherinn haldið svæðinu í herkví og síðustu vikur gert fjölda árása. 

Hjálparsamtök á vettvangi segja að í einni loftárásinni í dag hafi tólf fallið, þeirra á meðal tvö börn. Í síðustu viku féllu 25 óbreyttir borgarar í árásum á svæðinu. Um 400 þúsund manns eru innlyksa í héraðinu sem er skammt frá höfuðborginni Damaskus. 

Barn fær alhlynningu í bænum Misraba í Austur-Ghouta eftir loftárás.
Barn fær alhlynningu í bænum Misraba í Austur-Ghouta eftir loftárás. AFP

Sýrlenski stjórnarherinn sem og hersveitir Rússa sem hafa tekið beinan þátt í stríðinu hafa ítrekað hafnað því að bera ábyrgð á loftárásum á óbreytta borgara.

Á meðal þeirra heilbrigðisstofnana sem orðið hafa fyrir loftárásum síðustu daga er fæðingardeild í Idlib-héraði. Það sjúkrahús varð fyrir þremur árásum á fjórum dögum. Fimm létust í þeirri mannskæðustu sem varð gerð á miðvikudag, að því er hjálparstarfsmenn á vettvangi segja. Sjúkrahúsinu var lokað tímabundið í kjölfarið.

Sjúkrahús í Austur-Ghouta hafa orðið hvað verst úti í árásum síðustu daga. „Við höfum ekki áður séð árásir á þessu stigi,“ segir Hamish de Bretton-Gordon, ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann segir að mörg börn í héraðinu þarfnist nauðsynlega læknisþjónustu og að þau verði að komast frá svæðinu til að fá hana. „Hér eru 125 börn sem þarfnast lífsnauðsynlegra aðgerða, þeirra á meðal þrjú ungbörn sem eru svo alvarlega slösuð að það er ekki hægt að lýsa því.“

Hann segir að eitt barnanna sé aðeins sex mánaða. Það hafi misst auga í árás og muni deyja ef það komist ekki þegar í stað undir læknishendur. Þá nefnir hann átta ára stúlku sem sé aðeins átta kíló að þyngd og þjáist af alvarlegri vannæringu. Hún sé einnig við dauðans dyr.

„Þetta stríð er jafnslæmt í byrjun þessa árs og það var í lok þess síðasta,“ segir hann. „Þessar árásir á sjúkrahús eru viðbjóðslegar og algjörlega ólíðandi.“

Stúlka sem særðist í árás í bænum Douma fær aðhlynningu.
Stúlka sem særðist í árás í bænum Douma fær aðhlynningu. AFP

Hann segir að frá því að stríðið í Sýrlandi braust út árið 2011 hafi verið gerðar fjölmargar árásir á sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir. „Það er til skammar að enginn hafi enn verið sóttur til saka fyrir þá stríðsglæpi og það grefur verulega undan tiltrú á Sameinuðu þjóðirnar.“

Í lok síðasta árs leyfðu sýrlensk stjórnvöld brottflutning 29 lífshættulegra veikra og slasaðra frá Austur-Ghouta. Var samið um það við uppreisnarmennina gegn því að þeir slepptu jafnmörgum föngum úr haldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert