75% repúblikana telja FBI grafa undan Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þrír fjórðu repúblikana telja FBI og dómsmálaráðuneytið …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þrír fjórðu repúblikana telja FBI og dómsmálaráðuneytið reyna að grafa undan trausti í garð forsetans. AFP

Þrír af hverjum fjórum repúblikönum telja bandarísku alríkislögregluna FBI og dómsmálaráðuneyti landsins vera að reyna að grafa undan Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar Reuters/Ipsos sem birt var í dag.

Þykir þetta mikil viðsnúningur fyrir Repúblikanaflokkinn, sem á langa sögu að baki sem virkur stuðningsaðili löggæslustofnana. Meirihluti bandarísks almennings er engu að síður enn þeirrar skoðunar að Trump, eða einhver sem starfaði fyrir forsetaframboð hans, hafi í samstarfi við rússneska ráðamenn reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar 2016.

Bæði Trump og rússneskir ráðamenn hafa ítrekað hafnað slíkum ásökunum.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 3.-5. febrúar og sýnir hún að flokkslínur eru sterkar er kemur að tilraun forsetans og bandamanna hans í Repúblikanaflokknum til að tortryggja rannsókn FBI á mögulegum tengslum framboðs Trump og Rússa.

Voru 73% repúblikana þeirrar skoðunar að „starfsmenn FBI og dómsmálaráðuneytisins væru að vinna að því a draga úr lögmæti Trumps í gegnum pólitíska rannsókn“. Sama hlutfall demókrata sagðist aftur trúa því að þingmenn Repúblikanaflokksins og starfsfólk Hvíta hússins væru að vinna að því að draga úr lögmæti rannsóknar FBI og ráðuneytisins á meintum afskiptum Rússa af kosningunum.

52% telja Trump hafa unnið með Rússum

Segir Reuters könnunina sýna þau áhrif sem Trump hafi á repúblikana, enda hafi þeir lengi vel treyst löggæslustofnunum betur en aðrir kjósendur.

Þegar traust til FBI var skoðað í janúar 2015 sögðust 84% repúblikana líta FBI jákvæðum augum. Í síðasta mánuði sögðust 55% repúblikana bera mikið traust til löggæslustofnana, sem er mun hærra hlutfall en þau 30% sem lýstu yfir jafnmiklu trausti í garð stjórnar Trumps, eða þeirra 9% sem treystu þinginu.

Bandarískur almenningur virðist hins vegar ekki hafa skipt um skoðun á Rússarannsókninni sjálfri. Þannig sögðu 52% aðspurðra að þeir teldu Trump eða einhvern hjá framboði hans hafa átt í samstarfi við Rússa og að líklegt sé að „yfirvöld muni finna sönnun um ólögleg samskipti stjórnar Trumps og Rússa“.

Er þetta sama hlutfall og var þessarar skoðunar er spurningin var síðast lögð fyrir árið 2017.

Alls tóku 2.251 þátt í könnuninni, þar af voru 941 demókrati og 827 repúblikanar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert