Krefjast kynlífs fyrir mat

Omar er einn þeirra sem særðist í árásum um helgina.
Omar er einn þeirra sem særðist í árásum um helgina. AFP

Sýrlenskar konur hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu starfsmanna mannúðarsamtaka sem koma til landsins til að dreifa neyðaraðstoð. Karlarnir létu konurnar fá mat gegn kynlífi, að því er fram kemur í frétt BBC. Karlarnir starfa hjá Sameinuðu þjóðunum og fleiri alþjóðlegum stofnunum.

Þrátt fyrir að viðvaranir hafi verið gefnar út vegna þessa fyrir þremur árum sýnir ný skýrsla að þetta er enn við lýði í suðurhluta Sýrlands. Stofnanir SÞ og hjálparstofnanir hafa lýst því yfir að umburðarlyndið í garð slíkra níðingsverka sé ekkert en samt sem áður er þetta enn í gangi. Stofnanirnar segja að þær hafi ekki vitað af ofbeldinu sem samstarfssamtök þeirra stunda. 

Dæmi eru um að sýrlenskar konur vilji ekki fara inn …
Dæmi eru um að sýrlenskar konur vilji ekki fara inn á dreifingarmiðstöðvar því þar þyki sjálfsagt að þær veiti aðgang að líkama sínum gegn neyðaraðstoð. AFP

Hjálparstarfsmenn sem BBC ræddi við segja þessi misbeiting sé svo algeng að sumar sýrlenskar konur neiti að mæta í dreifingarmiðstöðvar því fólk geri einfaldlega ráð fyrir því að ef þær geri það þá séu þær hafi falboðið líkama sína fyrir matinn sem þær koma með þaðan.

Einn hjálparstarfsmaður segir í viðtali við BBC að mannúðarstofnanir viti vel af þessu en líti undan þar sem eina leiðin til þess að koma neyðaraðstoð til íbúanna sé að nýta sér þjónustu þriðja aðila við að dreifa aðstoðinni til bágstaddra á hættulegum stöðum sem alþjóðlegir starfsmenn hafa ekki aðgang að.

Skýrslan sem nefnist Raddir frá Sýrlandi 2018 sýni fram á að mannúðaraðstoð fáist ekki nema í skiptum fyrir kynlíf á sumum svæðum.

Konur og stúlkur gangi í hjónaband með hjálparstarfsmönnum gegn því að fá að borða og hjálparstarfsmenn telji eðlilegt að fá greitt fyrir í kynmökum. Konur sem ekki njóta verndar karlmanna, svo sem ekkjur og fráskildar konur og konur og stúlkur sem eru á vergangi, eru í mestri hættu. 

Manar er sjö ára. Hún særðist í loftárás á heimili …
Manar er sjö ára. Hún særðist í loftárás á heimili hennar í bænum Otaybah. Fjölmargir úr fjölskyldu hennar lifðu ekki af árásina. AFP

Danielle Spencer, sem starfar hjá mannúðarsamtökum, lýsir því fyrir BBC hvernig konur og stúlkur hafi lýst þessu fyrir henni í flóttamannabúðum í Jórdaníu. Hvernig þær urðu að veita kynferðislega greiða til þess að fá mat og hreinlætisvörur afhentar. Í júní 2015 var gerð könnun meðal flóttakvenna og stúlkna frá Dara'a og Quneitra. Í ljós kom að 40% þeirra hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu hjálparstarfsmanna og annarra sem áttu að veita þeim aðstoð.

Vegna þess hversu víðtækt ofbeldið er hafa hjálparsamtökin Care hætt að nýta sér þjónustu sveitarstjórna í Sýrlandi. Þrátt fyrir að hafa óskað eftir því að ásakanir kvenna yrðu rannsakaðar frekar þá hafa hjálpastofnanir á vegum SÞ neitað því. Spencer segir ástæðuna vera þá að allir viti af þessu og misnotkun á konum og stúlkum í Sýrlandi sé enn við lýði. 

Fleiri hundruð þúsund Sýrlendingar hafa verið drepnir frá því stríðið braust út fyrir sjö árum. Bara í síðustu viku voru yfir 550 almennir borgarar, þar af þriðjungur börn, drepnir í árásum á Austur-Ghouta, skammt fyrir utan höfuðborg landsins. 

AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti að krefjast 30 daga vopnahlés í Sýrlandi á laugardag og í gær fyrirskipaði forseti Rússlands,VladimírPútín, að hlé yrði gert á árásum í fimm klukkustundir á dag til þess að koma neyðaraðstoð til íbúa. Fyrsta hléið hófst klukkan 7 í morgun að íslenskum tíma en klukkan 14 lýkur hléinu. 

Börn fylla plastbrúsa með vatni í Arbin í Austur-Ghouta um …
Börn fylla plastbrúsa með vatni í Arbin í Austur-Ghouta um helgina. Slík ferð getur verið lífshættuleg. AFP

Talið er að íbúar Austur-Ghouta séu um 400 þúsund talsins en stjórnvöld í Sýrlandi hafa ekki ráðið yfir svæðinu frá árinu 2012. Nokkrar hreyfingar uppreisnarmanna ráða þar ríkjum auk vígasveita. Eftir að vígasamtökin Ríki íslams voru nánast brotin á bak aftur í Sýrlandi hafa stjórnvöld einkum beint sjónum sínum að Austur-Ghouta og notið stuðnings Rússa.

Götumynd frá Arbin.
Götumynd frá Arbin. AFP

Sprengjuregnið hefur nánast verið stöðugt undanfarið og eru flestir íbúanna flúnir af yfirborði jarðar. Hafa komið sér fyrir í tjöldum í kjöllurum húsa og hætta sér ekki út nema til þess að kaupa mat og kanna skemmdir á heimilum sínum. Slíkar ferðir eru stórhættulegar og oft banvænar í kúlnaregninu. Fólki hefur blætt út þar sem það situr fast undir rústum heimila sína þar sem björgunarmönnum er ekki einu sinni hlíft við árásum. 

Að minnsta kosti 22 almennir borgarar, þar af sjö börn, voru drepin í árásum í Austur-Ghouta í gær þrátt fyrir vopnahlé. Á sunnudag lést barn og 13 áttu í öndunarerfiðleikum eftir að hafa orðið fyrir árás. Allt bendir til þess að klórgasi hafi verið beitt á börnin og fjölskyldur þeirra í bænum Al-Shifuniyah. Rússar segja þetta ekki rétt og bara sé um flökkusögur að ræða. Stjórnarherinn neitar því að beita efnavopnum í stríðinu þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að það sé ekki rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert