Rannsaka hvort eitrað hafi verið fyrir njósnara

Breska lögreglan rannsakar nú hvort að eitrað hafi verið fyrir …
Breska lögreglan rannsakar nú hvort að eitrað hafi verið fyrir Skripal. AFP

Sergei Skripal, sem veitti bresku leyniþjónustunni upplýsingar um rússneska leyniþjónustumenn, fannst meðvitundarlaus Bretlandi í gær. Lögregla rannsakar nú hvort að eitrað hafi verið fyrir honum.

Skripal er sagður hafa fundist meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í borginni Salisbury, en Reuters fréttastofan hefur eftir heimildarmanni að Skripal hafi komist í snertingu við efni sem ekki hafa verið borin kennsl á.

Segir breska lögreglan tvo einstaklinga, karl á sjötugsaldri og konu á fertugsaldri hafa fundist meðvitundarlaus á bekknum, en Reuters hefur eftir heimildamanni að maðurinn sé Skripal. Bæði tvö eru sögð liggja alvarlega veik á bráðadeild og rannsakar lögregla nú hvort að um einhvers konar eiturefni hafi verið að ræða.

Skripal var ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins. Hann var dæmdur sekur um landráð árið 2006, en var svo hluti af fangaskiptum milli Rússa og Breta árið 2010.

Craig Holden, starfandi aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni í Whiltshire, segir málið ekki vera rannsakað sem hryðjuverk, en að lögregla haldi opnum huga hvað það varðar.

Samskipti breskra og rússneskra stjórnvalda hefur verið stirð frá því að fyrrverandi KGB starfsmaðurinn og stjórnarandstæðingurinn Alexander Litvinenko var myrtur með geislavirku póloníumi í London 2006. Úrskurðaði bresk rannsóknarnefnd á þeim tíma að morðið hafi að öllum líkindum verið framið með heimild Vladimír Pútíns Rússlandsforseta.

Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar alla tíð neitað að hafa átt þátt í morðinu.

Rússneskur leyniþjónustumaður fangelsaður fyrir njósnir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert