Trudeau svarar með tollum á Bandaríkin

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur tilkynnt að Kanada muni mæta Bandaríkjunum með sambærilegum tollum og Bandaríkin hafa sett á innflutt stál og ál frá Kanada, Evrópuríkjum og Mexíkó. Þetta kom fram eftir fund G7-ríkjanna í dag.

Sagði Trudeau að hann hefði varað Donald Trump Bandaríkjaforseta við því að Kanada myndi leggja álíka tolla á vörur frá Bandaríkjunum frá og með 1. júlí.

Trudeau sagði Trump hafa móðgað fyrrverandi hermenn Kanada, sem hafi barist samhliða bandarískum hermönnum áður fyrr, með því að vísa til þess að um þjóðaröryggismál væri að ræða að notað væri bandarískt ál og stál.

Sagði Trudeau að það væri með harmi, en jafnframt af festu sem hann myndi leggja tollana á frá og með næstu mánaðamótum.  

Ekki tókst að ná sáttum um tollamál milli ríkjanna sjö á fundinum, en Trump fór fyrr af honum með þeim orðum að Bandaríkin hefðu verið notuð sem sparigrís fyrir önnur ríki í gegnum tíðina og það myndi ekki ganga lengur.

Ríkin sendu þó að fundinum loknum frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau kröfðust þess að Rússar myndu hætta að grafa undan lýðræði. Þá studdu ríkin ásakanir Breta gegn Rússum vegna eitrunar á fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal. Trump hafði áður kallað eftir því að Rússum yrði aftur hleypt inn í hóp G7-ríkjanna, en eftir innrásina í Úkraínu var þeim sparkað út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert