Flytur hluta starfseminnar frá Bandaríkjunum

Harley Davidon-hjól í New York.
Harley Davidon-hjól í New York. AFP

Mótorhjólaframleiðandinn bandaríski, Harley Davidson, tilkynnti í gær að fyrirtækið myndi flytja þann hluta framleiðslunnar sinnar, sem ætluð er Evrópumarkaði burt frá Bandaríkjunum. Fyrirtækið hefur sagt að ákvörðunin sé ekki því að skapi, en sé „eini raunhæfi möguleiki fyrirtækisins til að gera mótorhjól [þeirra] aðgengileg viðskiptavinum í Evrópusambandinu og viðhalda blómlegum viðskiptum í Evrópu“.

Ákvörðunin er tekin í kjölfar hefndartolla sem Evrópusambandið lagði á valdan bandarískan varning, þeirra á meðal mótorhjól, sem viðbragð við ál- og stáltollum Bandaríkjastjórnar á heimsbyggðina.

Fyrirtækið hefur farið illa út úr tollastríði Bandaríkjaforseta því auk þess að verða fyrir barðinu á slíkum hefndartollum ESB, og mögulega fleiri ríkja, hafa ál- og stáltollar forsetans orðið til þess að hækka framleiðslukostnað fyrirtækisins enda málmarnir tveir notaðir við hjólaframleiðsluna. Því má segja að hið rótgróna bandaríska fyrirtæki slái tvær flugur í einu höggi með því að færa framleiðsluna úr landi.

Donald Trump skilur þó lítið í ákvörðun fyrirtækisins, en forsetinn hefur tíst fjórum sinnum um fyrirtækið síðastliðinn sólarhring. 

„Það kemur mér á óvart að Harley Davidson, af öllum fyrirtækjum, skuli gefast upp. Ég barðist kröftulega fyrir þau og að lokum munu þau ekki greiða tolla til Evrópusambandsins, sem hefur skaðað okkur harkalega með viðskiptum, niður um 151 milljarð dala. Skattar eru afsökun Harley - verið þolinmæð,“ segir forsetinn á Twitter.

Þá virtist hann einnig hóta fyrirtækinu aukinni skattheimtu fyrir ákvörðunina, en óvíst hvernig forsetinn hyggst framkvæma það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert