Sagði upp eftir flóð hneyklismála

Mótmælendur fyrir utan skrifstofu Umhverfisstofnunar Bandaríkjanan í New York eftir …
Mótmælendur fyrir utan skrifstofu Umhverfisstofnunar Bandaríkjanan í New York eftir að upp komst að forstjórinn Scott Pruitt hefði beðið starfsmenn sína að finna vinnu fyrir eiginkonu sína. AFP

Flóðbylgja neikvæðrar gagnrýni á störf forstjóra Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna á síðustu vikum og mánuðum varð að lokum til þess að hann sagði starfi sínu lausu. „Gott að vera laus við hann,“ skrifaði þingmaður demókrata, Earl Blumenauer, á Twitter og lýsti þar með skoðun margra á Scott Pruitt sem m.a. er sakaður um að hafa misnotað stöðu sína og peninga ríkisins sér og fjölskyldu sinni til hagsbóta. Hann varð m.a. uppvís að því að hafa flogið í einkaþotu og herþotu milli staða í stað þess að nýta sér áætlunarflug og höfðu fjárútlát hans til slíkra ferðalaga m.a. komið inn á borð nefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá afsögn Pruitts í gær og var þar með endir bundinn á vangaveltur margra um framtíð hans í embætti. Trump, sem valdi Pruitt í stöðuna, hrósaði honum fyrir vel unnin störf og sagði hann hafa staðið sig einstaklega vel. Trump segir að ekkert eitt hafi orðið til þess að Pruitt ákvað að hætta og segir ákvörðunina hafa að fullu legið hjá honum sjálfum. 

„Hann kom til mín og sagði: Ég hef svo mikla trú á ríkisstjórninni. Ég vil ekki trufla starf hennar“,“ hafði Trump eftir Pruitt við blaðamenn um borð í forsetaflugvélinni í gær. „Og ég held að Scott hafi talið sig vera truflun.“

Scott Pruitt gefur skýrslu fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings um útgjöld …
Scott Pruitt gefur skýrslu fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings um útgjöld umhverfisstofnunarinnar. AFP

Við starfi Pruitts tekur Andrew Wheeler sem var áður varaforstjóri umhverfisstofnunarinnar. Wheeler er fyrrverandi talsmaður kolavinnslufyrirtækja í Bandaríkjunum. 

„Hann er mikill maður umhverfisins. Hann trúir og hann á eftir að standa sig frábærlega,“ sagði Trump um Wheeler. 

Pruitt er sagður hafa haft náin tengsl við fyrirtæki sem vinna jarðefnaeldsneyti og var hann mjög umdeildur jafnvel áður en hann tók við starfi forstjóra umhverfisstofnunar landsins. Trump réð hann til starfans til að snúa ofan af umhverfismálastefnu Baracks Obama sem m.a. snéri að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna með ýmsum öðrum leiðum gegn loftslagsbreytingum.

Pruitt var áður ríkissaksóknari í Oklahoma-ríki. Í starfi sínu sem forstjóri Umhverfisstofnunar hefur hann ítrekað verið tekinn til rannsóknar á síðustu misserum, m.a. af innra eftirliti stofnunarinnar sjálfrar, tveimur öðrum opinberum stofnunum sem og þingnefndinni sem fyrr greinir. Listinn yfir rannsóknarefnin gegn hinum fimmtuga Pruitt var orðinn gríðarlega langur.

Misnotaði stöðu sína

Sameiginlegan þráð má þó finna í ásökunum gegn honum: Hann virðist hafa nýtt sér stöðu sína, sem hann gegndi frá því í febrúar í fyrra, sér og fjölskyldu sinni til framdráttar og þar með brotið alríkislög. Þá refsaði hann undirmönnum sínum sem gagnrýndu þá hegðun hans eða sýndu honum ekki þá tryggð sem hann vildi.

Upptökin má finna í notkun hans á fyrsta farrými og einkaflugi í opinberum erindagjörðum en fyrir slíkt voru skattgreiðendur látnir borga þrátt fyrir að brjóta í bága við viðmiðunarreglur opinberra starfsmanna. 

Scott Pruitt mætti til hátíðarhalda Hvíta hússins þann 4. júlí. …
Scott Pruitt mætti til hátíðarhalda Hvíta hússins þann 4. júlí. Daginn eftir sagði hann upp. AFP

Í kjölfarið komu svo fréttir um mikinn fjölda lífvarða sem gættu hans allan sólahringinn. Kostnaður við þá gæslu var helmingi meiri en forvera hans í stafi.

Þá lét hann setja upp trygga símalínu í sérstöku herbergi á skrifstofu sinni í Washington sem kostaði 43 þúsund dollara, rúmlega 4,5 milljónir króna. 

Persónuleg útgjöld hans komust einnig í fréttir. Hann leigði íbúð í eigu talsmanna olíuiðnaðarins í lúxushverfi í Washington og greiddi einungis 50 dollara á sólarhring, um 5.000 krónur. Hann þurfti aðeins að greiða fyrir þær nætur sem hann gisti í húsinu.

 Hann fól starfsmönnum umhverfisstofnunarinnar einnig persónuleg verkefni eins og að finna fyrir hann íbúð, útvega honum miða á íþróttaviðburði og við að aðstoða eiginkonu hans í atvinnuleit. Sum þessara verkefna voru vægast sagt undarleg, til dæmis það að útvega sér notaða rúmdýnu frá Trump-hóteli.

Í uppsagnarbréfi sínu minntist Pruitt ekki einu orði á þessi umdeildu mál. Hann hrósaði hins vegar Trump fyrir að hafa „blessað“ sig og gert honum kleift að útfæra stefnu hans umfram það sem nokkur hafði átt von á.

Í stað þess að svara fyrir þessi mál beindi hann spjótum að gagnrýnendum sínum, m.a. demókrötum sem sæti eiga í fulltrúadeildinni. „Þessar linnulausu árásir á mig persónulega, fjölskyldu mína, eru fordæmalausar og hafa tekið sinn toll af okkur öllum,“ skrifaði hann í uppsagnarbréfi sínu til Trumps. 

Scott Pruitt sagði upp í gær, 5. júlí. Fjallað var …
Scott Pruitt sagði upp í gær, 5. júlí. Fjallað var um brotthvarf þessa mikla bandamanns Trumps í fréttum víða. AFP

Miklar og stöðugar mannabreytingar hafa orðið í hópi helstu embættismanna undir ríkisstjórn Donalds Trump frá því hann settist á forsetastól. Allt byrjaði það með brottrekstri þjóðaröryggisráðgjafans Michael Flynn. Á eftir fylgdu heilbrigðisráðherrann Tom Price, utanríkisráðherrann Rex Tillerson, þjóðaröryggisráðgjafinn H.R. McMaster og fleiri. 

Trump stóð lengst af með Pruitt sem hafði m.a. varið þá stefnu forsetans að segja sig úr Parísarsamkomulaginu um aðgerðir ríkja heims gegn loftslagsbreytingum. Trump hefur sagt að samkomulagi standi í vegi fyrir hagvexti. 

En tónninn breyttist undir lok embættistíðar Pruitts. Í síðasta mánuði hrósað Trump honum fyrir „frábært starf“ en bætti við: „Ég er ekki ánægður með ákveðin atriði, ég skal vera hreinskilinn með það.“

Þingmenn demókrata hafa mánuðum saman krafist afsagnar Pruitts. „Miðað við að Pruitt misheppnaðist algjörlega að vernda hreint andrúmsloft okkar og vatn, og að vera umfjöllunarefni þrettán rannsókna, þá er spurningin aðeins sú af hverju þetta tók svona langan tíma,“ segir þingmaðurinn Earl Blumenauer. 

Grein CNN um rannsóknir á störfum Pruitts sem eru yfirstandandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert