Pia í ritdeilum um hátíðarþingfundinn

Pia Kjærsgaard flutti ræðu á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 18. …
Pia Kjærsgaard flutti ræðu á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 18. júlí sl. mbl.is/Hari

Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, stendur um þessar mundir í ritdeilum við leiðarahöfund danska blaðsins Information.

Þrætueplið eru viðbrögð hennar við gagnrýni íslenskra þingmanna eftir að hún var fengin sem heiðursgestur á þingfund Alþingis á Þingvöllum í tilefni 100 ára afmælis undirritunar sambandslaganna 18. júlí sl. Pia sagði m.a. að mótmæli þingflokks Pírata og Helgu Völu Helgadóttur í Samfylkingu, væru vanvirðing við lýðræðið.

Í grein sinni frá 23. júlí sl. sagði hann að betur hefði farið á því ef Pia hefði hafið sig upp yfir deilurnar enda væri hún forseti danska þingsins. Sagði hann Piu í staðinn hafa hagað sér sem unglingur á mótþróaskeiði, stappað niður fótum og öskrað: „Sjáið þið ekki að ég er fullorðin?“ Hún hefði sem forseti danska þingsins átt að standa utan við deiluna.

Pínlegra fyrir Alþingi en Piu?

Í grein sinni í sama fjölmiðli í morgun segir Pia að hún hafi fyrst blandað sér í málin þegar fjölmiðlar hafi hafið umfjöllun um þau. Hún undrast þá skoðun leiðarahöfundar að hún hafi átt að halda sig frá málinu og að hún hafi átt að standa hjá „eins og vaxmyndastytta á vaxmyndasafninu Madame Tussauds.“ 

„Er ekki rökrétt að ég bregðist við? Á ég bara að sitja hjá?“ ritar Pia.

Nefnir hún að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefði sjálfur staðfest hve vandræðaleg uppákoman á Þingvöllum hefði verið þegar hann hafi beðist innilega afsökunar á henni. „Ef það sama hefði gerst í þjóðþinginu hefði ég brugðist við með sama hætti,“ ritar Pia.

„Það að þingmenn Pírata og Samfylkingarinnar geti ekki skilið á milli hlutverka stjórnmálamannsins og þingforsetans lýsir skilningsleysi á lýðræðinu. Það er barnalegt að setja viðburð sem þennan í uppnám og setja skipuleggjendurna í þessa stöðu,“ sagði Pia.

Pia segir það ekki koma á óvart að leiðarahöfundurinn láti málið snúast um persónu hennar. Hún nefnir að hann ætti kannski að líta málið öðrum augum og spyrja hvort það hafi hugsanlega verið vanvirðing við þingið, að koma með þessum hætti fram við boðsgest. Hvort uppákoman hefði jafnvel verið pínlegri fyrir Alþingi heldur en hana sjálfa.

„Kannski ætti einn hinna skörpu blaðamanna Information að kanna hvort það geti verið að valdabarátta í íslenskri pólitík sé ein af ástæðunum fyrir hinni vandræðalegu uppákomu í staðinn fyrir að láta fréttina í verða að enn einni fréttinni um Piu Kjærsgaard,“ ritar Pia.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert