Símtölum í hjálparsíma fjölgað mikið

í gær, þegar Ford bar vitni, voru símtölin 201 prósent …
í gær, þegar Ford bar vitni, voru símtölin 201 prósent fleiri en á venjulegum fimmtudegi. AFP

Mikil aukning hefur orðið á símtölum í hjálparsíma fyrir þá sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi í Bandaríkjunum frá því Christine Blasey Ford steig fram og sakaði Brett Kavanaugh um að hafa beitt hana kynferðisofbeldi þegar hún var 15 ára. Í gær, sama dag og Ford bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, voru símtölin 201 prósent fleiri en á venjulegum fimmtudegi. AFP-fréttastofan greinir frá.

Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, til­nefndi Brett Kavan­augh í embætti dómrara við hæstarétt Bandaríkjanna en tek­ist hef­ur verið á um til­nefn­ing­una að und­an­förnu. Tvær aðrar konur hafa sakað Kavanaugh kynferðisofbeldi.

Aðstandendur hjálparsímans, samtökin RAINN, segja símtölum oft fjölga þegar fréttir af kynferðisofbeldi eru áberandi í fjölmiðlum. Svipuð aukning varð til að mynda á símtölum þegar #metoo-byltingin fór af stað.

„Frá því Ford steig fram með sínar ásakanir höfum við séð 45,6 prósent aukningu símtala miðað við sama tímabil í fyrra,“ segir í yfirlýsingu frá RAINN á Twitter. Aukningin náði hæstu hæðum í gær, en um síðustu helgi, frá föstudegi til sunnudags, voru símtölin 57 prósentum fleiri en um venjulega helgi.

„Það getur verið mjög erfitt fyrir þá sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og aðstandendur þeirra að heyra fréttir af kynferðisofbeldi. Það er því mikilvægt að þið gætið vel að hvert öðru á þessum tíma,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

Ford sagði í vitnisburði sínum að hún hefði óttast að Kavanaugh ætlaði að nauða henni. Hún náði hins vegar að flýja undan honum þegar annar strákur, sem var staddur í sama herbergi, stökk á rúmið þar sem Kavanaugh átti að hafa haldið henni niðri. Hann hefur neitað öllum áskökunum hennar.

Fast­lega er gert ráð fyr­ir því að dóm­stóla­nefnd­in greiði at­kvæði um tilnefningu Trump í dag líkt og áætlað var en ekki er vitað ná­kvæm­lega hvenær öld­unga­deild­in öll greiðir at­kvæði. Vænt­an­lega ekki fyrr en um miðja viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert