Segir Kavanaugh hafa logið um drykkjuna

Brett Kavanaugh ber vitni fyrir dómaranefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Brett Kavanaugh ber vitni fyrir dómaranefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Bekkjarfélagi Brett Kavanaugh, dómaraefnis Donald Trumps Bandaríkjaforseta, segir hann hafa logið eiðsvarinn um drykkjuvenjur sínar.

New York Times hefur eftir Charles Ludington, sem var bekkjarfélagi Kavanaugh í Yale-háskóla, að „blygðunarlausar rangfærslur“ Kavanaugh við yfirheyrslu hjá dómaranefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hafi valdið sér „verulegum áhyggjum“.

Í yfirheyrslunni neitaði Kavanaugh því að hann hefði nokkurn tímann neytt áfengis í því magni að það hefði valdið honum minnisleysi.

Bandaríska alríkislögreglan FBI er nú með til rannsóknar ásakanir í garð Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi á námsárum hans og var afgreiðslu á tilnefningu hans sem hæstaréttardómara frestað í þinginu á meðan rannsóknin fer fram.

Sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford, ein þriggja kvenna sem sakað hafa Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi, bar einnig vitni fyrir dómaranefndinni sl. fimmtudag.

Ludington, sem kennir í North Carolina State University, segist hafa séð Kavanaugh þvoglumæltan og reikulan í spori eftir mikla áfengisneyslu í Yale. Þá segir hann Kavanaugh hafa oft verið dólgslegan og árásargjarnan er hann var drukkinn.

„Ég get fortakslaust sagt að með því að neita alfarið þeim möguleika að hann hafi nokkurn tímann orðið fyrir minnistapi sökum drykkju og með því að gera lítið úr tíðni og magni drykkju sinnar, þá var Brett ekki að segja satt,“ sagði Ludington.

Hann bætti við að það væru ekki drykkjuvenjur Kavanaugh sem yllu honum áhyggjum, heldur sú staðreynd að hann hafi sett fram þessa vafasömu fullyrðingu er hann var eiðsvarinn.

„Ef hann laug til um um fyrri gjörðir sínar í sjónvarpi, hvað þá er hann var eiðsvarinn fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings, tel ég að þær lygar eigi að hafa afleiðingar.“

Segir New York Times Ludington ætla að ræða við FBI síðar í dag. 

Yfirlýsing hans er í beinni mótsögn við fullyrðingu annars bekkjarfélaga Kavanaugh í Yale, fyrrverandi NBA-leikmannsins Chris Dudley, sem sagði Washington Post að hann „hefði aldrei nokkurn tímann séð Kavanaugh deyja áfengisdauða“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert