Á öndverðum meiði um skýrslu FBI

Stuðningsmaður og andstæðingur Bretts Kavanaugh deila fyrir utan þinghús Bandaríkjanna.
Stuðningsmaður og andstæðingur Bretts Kavanaugh deila fyrir utan þinghús Bandaríkjanna. AFP

Bandarískir öldungadeildarþingmenn eru á öndverðum meiði um skýrslu bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, vegna ásakana um að Brett Kavanaugh hafi framið kynferðisbrot.

Kavanaugh er dómaraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hæstarétt.

Eitt afrit var tekið af skýrslunni sem allir eitt hundrað þingmennirnir fá að lesa. Demókratar segja að skýrslan sé ekki tilbúin á meðan repúblikanar segja að hún styðji ekki við ásakanirnar.

Kavanaugh hefur neitað öllum ásökunum á hendur sér.

Búist er við að kosið verði um það hvort Kavanaugh hljóti embættið á laugardaginn. Verði hann kosinn verða íhaldssamir dómarar í meirihluta í Hæstarétti.

Charles Grassley.
Charles Grassley. AFP

Dómararnir níu eru skipaðir til lífstíðar og hafa lokaorðið í mörgum mikilvægum málefnum í bandarísku þjóðfélagi, þar á meðal málum tengdum fóstureyðingum, byssueign og kosningalöggjöf.

Þingmönnum hefur verið bannað að segja frá efni skýrslunnar en þingmaðurinn Bob Corker hefur þó sagt að hún sé 46 blaðsíðna löng, að sögn BBC.

Í skýrslunni eru viðtöl sem FBI hefur tekið vegna ásakananna. Talið er að rætt hafi verið við níu manns en ekki þó Kavanaugh eða konuna sem sakaði hann fyrst um kynferðislegt ofbeldi.

Dianne Feinstein.
Dianne Feinstein. AFP

„Það er ekkert í henni sem við vissum ekki þegar,“ sagði þingmaður repúblikana Charles Grassley. Bætti hann við að FBI hefði ekki fundið „neina vísbendingu um misferli“.

Demókratinn Dianne Feinstein sagði skýrsluna ekki vera tilbúna og bætti við að það merkilegasta við hana sé það sem er ekki að finna þar.

Repúblikaninn Susan Collins sagði að skýrslan „virðist vera mjög nákvæm“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert