Ofbeldi á tónleikum nýnasista

Lögregla þurfti að beita piparúða vegna manns sem reyndi að …
Lögregla þurfti að beita piparúða vegna manns sem reyndi að komast yfir öryggisgirðingar. AFP

Átta þýskir lögregluþjónar slösuðust eftir að hafa verið grýttir með flöskum á rokktónleikum hægri-öfgamanna í bæ í austurhluta Þýskalands í gærkvöldi. Tónleikarnir, sem voru haldnir á torgi í bænum Apolda í Þýringalandi, voru stöðvaðir eftir aðeins klukkustund vegna ofbeldisins. BBC  greinir frá.

Um 700 nýnasistar voru saman komnir á tónleikunum, sem kölluðust „Rokk gegn útlendingaflóði“. Svipaður fjöldi fólks hafði komið saman fyrr um daginn til þess að mótmæla tónleikunum. Þá héldu kirkjur bæjarins sameiginlega messu gegn viðburðinum sama dag. Þangað mætti meðal annars æðsti ráðherra Þýringalands.

Leyfi hafði verið fengið fyrir tónleikunum, en ofbeldið hófst um leið og gestir hófu að týnast á staðinn. Flöskum var kastað, auk þess sem lögregla þurfti að beita piparúða vegna manns sem reyndi að komast yfir öryggisgirðingar. Lögreglan sagði síðar frá því á Twitter að átta lögregluþjónar hefðu slasast lítillega, en ekki þurft aðhlynningu á sjúkrahúsi.

Tónleikarnir voru færðir til Apolda á síðustu stundu, eftir að þeir voru bannaðir í nálægri borg. Öfgahægristefna nýtur síaukins fylgis í Þýskalandi um þessar mundir og styðja 23% íbúa Þýringalands hægriöfga- og andinnflytjendaflokkinn AfD (Alternative für Deutschland).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert